Karfan er tóm.
- Deildir
- Fréttir & Greinar
- Fræðsla & Forvarnir
- Félagið
- Miðlar & Myndefni
- Ábending um heiðursmerki
- Þór TV
Þann 4. desember var haldið mót í diplómahnefaleikum í sal Hnefaleikafélags Kópavogs, og áttum við Þórsarar þar fjóra keppendur.
Diplómahnefaleikar eru eins konar skóli í hnefaleikum, þar sem keppendur eru ekki að keppa við andstæðinginn á móti þeim heldur eru þau að keppa að því að fá stig fyrir tækni og leikni í hnefaleik.
Kerfið er þannig byggt upp að þegar þú byrjar þá getur þú mest fengið þrjú stig fyrir hvern flokk, þ.e. vörn, hrein högg og jafnvægi/fótavinnu. Til að fá diplóma þarft þú að fá þrjú stig í öllum flokkum frá öllum dómurum. Þegar það er klárt þá getur þú farið að vinna þig upp í brons, svo silfur og loks gullmerki Hnefaleikasambands Íslands.
Valgerður Telma Einarsdóttir fór fyrst upp í hringinn af okkar keppendum og keppti á móti Írisi Daðadóttur úr Hnefaleikafélagi Reykjavíkur. Íris reyndi að komast svolítið í návígið til að lenda krókum, og þurfti Valgerður að hafa sig alla við til að halda henni fyrir utan til að beita stunguni og beinni hægri. Úr varð einkar skemmtileg viðureign.
Lilja Lind Torfadóttir var næst upp í hring og mætti hún Ronald Mánasyni úr Hnefaleikafélagi Reykjavíkur. Það var mjög jöfn viðureign þar sem Lilja fékk að gera það sem hún gerir best, sem er að koma sér undan höggum og svara með gagnhöggum sem andstæðingurinn hefur ekki tíma til eða getur ekki brugðist við fyrr en of seint. Virkilega vel boxað hjá Lilju.
Ívan Þór Reynisson mætti Skúla Helgasyni úr Hnefaleikafélagi Reykjavíkur. Þeirra viðureign var hin glæsilegasta og fékk Skúli diplóma og Ívan fékk bronsmerki Hnefaleikasambands Íslands að viðureign lokinni.
Stefán Karl Ingvarsson mætti Tristani Smára Þóroddsyni úr Hnefaleikafélagi Hafnarfjarðar. Stefán er tiltölulega nýbyrjaður að æfa hnefaleika en svo var þó ekki að sjá í þessari viðureign, hann kom sér undan árás eftir árás og fékk Hafnfirðingurinn lítið að slá annað en loftið. Stefán var hins vegar mjög spar á gagnhöggin en lofaði að næst myndu hanskarnir aðeins verða notaðir.
Ívan fór svo aftur í Hringinn og mætti Nóel Frey Ragnarsyni úr Hnefaleikafélagi Reykjavíkur. Nóel er miklu reyndari en Ívan og er t.d. í landsliðinu í ólympískum hnefaleikum. Ljóst var að þetta yrði mjög erfið viðureign fyrir Ívan, en hann var ekkert að láta það trufla sig. Hann stóð sig gífurlega vel og var mjög lunkinn í að stöðva sóknir Nóels með vel tímasettri stungu og koma sér svo undan. Þetta var alveg frábær viðureign hjá þeim tveim og fékk Nóel gullmerki Hnefaleikasambands Íslands að henni lokinni.
Við erum mjög stolt af okkar krökkum og hlökkum til að sjá þau á næstu mótum.