Jóhann Kristinn snýr aftur til Þórs/KA

Dóra Sif Sigtryggsdóttir, formaður stjórnar Þórs/KA, og Jóhann Kristinn Gunnarsson, nýráðinn þjálfar…
Dóra Sif Sigtryggsdóttir, formaður stjórnar Þórs/KA, og Jóhann Kristinn Gunnarsson, nýráðinn þjálfari við undirritunina í dag. Með þeim á myndinni er fólk úr stjórn félagsins ásamt leikmönnum, frá vinstri: Guðrún Una Jónsdóttir, Bjarni Freyr Guðmundsosn, Ísfold Marý Sigtryggsdóttir, Sandra María Jessen, Jakobína Hjörvarsdóttir og Íris Egilsdóttir. Mynd: Skapti Hallgrímsson/akureyri.net.

Stjórn Þórs/KA hefur ráðið Jóhann Kristin Gunnarsson sem aðalþjálfara Þórs/KA næstu þrjú árin. Ágústa Kristinsdóttir verður yfirþjálfari yngri flokka og Hannes Bjarni Hannesson sjúkra- og styrktarþjálfari.

Jóhann Kristinn er Þór/KA og Akureyringum að góðu kunnur, en hann tók við þjálfun liðsins haustið 2011 og stýrði liðinu til Íslandsmeistaratitils 2012, á sínu fyrsta tímabili. Þá fór hann með liðið í Evrópukeppni árið 2013 ásamt því að komast í bikarúrslitaleikinn. Öll fimm árin sem Jói þjálfaði Þór/KA varð liðið í einu af fjórum efstu sætum deildarinnar. Hann fór einnig með Þór/KA í undanúrslit Lengjubikarsins 2013, 2014, 2015 og 2016. Þá þjálfaði hann lið Þórs/KA Hamranna í 2. flokki 2014-2016 og vann bikarmeistaratitil og silfurverðlaun 2015 og Íslandsmeistaratitil 2016.

Hann kveðst spenntur fyrir verkefninu. „Ég er mjög ánægður með að vera kominn aftur í Þór/KA og það er mikill heiður að fá að taka við þessu starfi á ný. Ég finn fyrir miklum krafti og metnaði hjá stjórninni og líst vel á þeirra hugmyndir og stefnu. Ég veit að efniviðurinn er mikill hérna og það býr heilmikið í liðinu. Það er bara spenningur að byrja og hjálpa liðinu að vaxa og dafna. Það er engin spurning að það er skýr stefna Þór/KA að vera eitt af sterkustu liðum landsins. Ég er alveg sannfærður um að framtíðin er björt hjá liðinu og leikmönnum þess,“ sagði Jói í samtali við tíðindamann heimasíðunnar.

Jói hefur mikla reynslu af þjálfun, bæði í meistaraflokki kvenna og karla, en hann hefur þjálfað karlalið Völsungs um árabil með hléum, en hafði áður einnig þjálfað kvennalið félagins. Samkvæmt gagnagrunni KSÍ hefur hann verið skráður þjálfari á leikskýrslu í 146 kvennaleikjum með Þór/KA og Völsungi og 235 karlaleikjum með Völsungi og Boltafélagi Húsavíkur.

Höfum mikla trú á Jóa

Dóra Sif Sigtryggsdóttir, formaður stjórnar Þórs/KA, lýsir yfir mikilli ánægju með að fá Jóa aftur til okkar.

„Við í stjórninni erum rosalega ánægð með þessa ráðningu. Jói er með mikla reynslu af þjálfun og gerði Þór/KA meðal annars að Íslandsmeisturum 2012, á sínu fyrsta tímabili með liðið. Hann hefur mikinn metnað fyrir Þór/KA og veit hvað þarf til að ná árangri. Við teljum að hann sé rétti þjálfarinn fyrir okkur og hann mun klárlega bæta okkur sem lið og sem einstaklinga. Við vitum hvað býr í stelpunum okkar og við erum fullviss um að Jói mun ná því besta fram í leikmönnum og liðinu öllu,“ sagði Dóra Sif Sigtryggsdóttir í samtali við tíðindamann heimasíðunnar.

Stjórnin mun í samstarfi við þjálfara vinna að því að efla tengingu og auka samstarf á milli allra flokkanna, en eins og kunnugt er rekur Þór/KA nú 2. og 3. flokk, ásamt meistaraflokki.


Samningurinn handsalaður. Dóra Sif og Jóhann Kristinn ásamt þremur leikmönnum meistaraflokks, þeim Ísfold Marý Sigtryggsdóttur, Söndru Maríu Jessen og Jakobínu Hjörvarsdóttur. Mynd: Skapti Hallgrímsson/akureyri.net.

Ágústa Kristinsdóttir yfirþjálfari yngri flokka

Stjórnin hefur samið við Ágústu Kristinsdóttur um að taka að sér starf yfirþjálfara yngri flokkanna og tekur hún við því starfi af Jóni Stefáni Jónssyni. Ágústa kom inn í þjálfarateymi Þórs/KA fyrir um ári síðan og var einn þriggja þjálfara í 2. og 3. flokki. Ekki þarf að fara mörgum orðum um frábæran árangur 3. flokks á árinu, en þar eru í safninu bikarar fyrir Stefnumót, Barcelona Cup, bikarkeppni KSÍ og Íslandsmót.

„Ég er mjög spennt fyrir komandi tímabili. Við eigum svakalega efnilegar stelpur í 2. og 3. flokki og vona að ég geti hjálpað þeim enn meira,“ sagði Ágústa við tíðindamann heimasíðunnar. Ágústa er okkur hjá Þór/KA auðvitað einnig að góðu kunn sem leikmaður, en hún á að baki 108 leiki með Þór/KA og Hömrunum á árunum 2011-2020. Hún hefur starfað við þjálfun yngri flokka frá 2010 með einu hléi, fyrst í nokkur ár hjá KA, síðan hjá Þór og síðasta árið hjá Þór/KA.

Hannes Bjarni sjúkra- og styrktarþjálfari

Hannes Bjarni Hannesson kom inn í þjálfarateymið sem sjúkraþjálfari fyrir nýafstaðið tímabil og tók síðan við af Elmu Eysteinsdóttur sem styrktarþjálfari meistaraflokks á miðju tímabili, en hún hefur sem kunnugt er snúið sér að stjórnmálunum og var kjörin í bæjarstjórn Akureyrar í vor. Hannes Bjarni verður áfram í þjálfarateyminu og mun að auki verða með styrktaræfingar fyrir yngri flokkana.

Hannes Bjarni hefur mikinn metnað og hefur náð vel til hópsins á þeim tíma sem hann hefur starfað með félaginu. Stjórnin býður hann velkominn til starfa og þakkar Elmu fyrir hennar mikilvæga framlag til félagsins og liðanna okkar.

Stjórn Þórs/KA býður þetta frábæra fagfólk velkomið til starfa og væntir mikils af starfi þeirra með okkar mjög svo spennandi og gríðarlega efnilega leikmannahópi í öllum flokkum.