Karfan er tóm.
- Deildir
- Fréttir & Greinar
- Fræðsla & Forvarnir
- Félagið
- Miðlar & Myndefni
- Ábending um heiðursmerki
- Þór TV
Leikur Þórs og Aþenu/Leiknis/UMFK í 1. deild kvenna í körfubolta í kvöld endaði með dramatík. Árás á leikmann Þórs á lokamínútunni fór fram hjá dómurum leiksins og skipti sköpum fyrir lokasóknirnar. Þórsliðið missti niður níu stiga forystu á lokamínútunum. Flautukarfa færði gestunum sigurinn í lokin.
Leikurinn var nokkuð jafn frá upphafi til enda, að mestu leyti, en bæði lið náðu þó örlitlu forskoti, hvort í sínum hálfleik. Forystan varð mest átta stig gestunum í vil í fyrri hálfleik og Þórsarar mest með níu stiga forystu í seinni hálfleik, en í bæði skiptin náði hitt liðið að éta upp forskotið.
Þórsliðinu gekk nokkuð brösuglega í upphafi og gestirnir náðu forystunni. Fóru þó aldrei langt fram úr og Þórsarar jöfnuðu fljótlega og komust yfir, skoruðu sex stig í röð. Þá kom góður kafli frá gestunum sem höfðu tveggja stiga forystu eftir fyrsta fjórðung, 16-18. Gestirnir héldu frumkvæðinu áfram í öðrum fjórðungi, náðu átta stiga forystu þegar hann var hálfnaður, 24-32, en okkar stelpur minnkuðu muninn jafnt og þétt aftur, skoruðu sjö stig í röð og munurinn kominn niður í eitt stig, 31-32, og komust síðan yfir, 35-34, í fyrsta skipti frá því í stöðunni 16-14 undir lok fyrsta leikhluta. Gestirnir náðu síðan að jafna í 37-37 í lok fyrri hálfleiks.
Liðin skiptust nokkrum sinnum á að leiða í þriðja fjórðungi, en munurinn aldrei mikill. Gestirnir einu stigi yfir fyrir síðasta fjórðunginn, 55-56. Þórsarar náðu frumkvæðinu fljótlega í síðasta fjórðungi, náðu ekki að slíta sig alveg frá gestunum, en þó virtust þær ætla að sigla sigrinum heim þegar leið á – forystan orðin níu stig þegar 1:53 voru eftir á klukkunni. Þá fór einhvern veginn allt úrskeiðis og á tæpum 80 sekúndum var sá munur horfinn og gestirnir komnir einu stigi yfir. Eva skoraði tveggja stiga körfu og Þór með eins stigs forystu þegar 22 sekúndur voru eftir. Gestirnir áttu skot þegar nokkrar sekúndur voru eftir, það geigaði, en þær hirtu frákastið og skoruðu þriggja stiga körfu á lokaandartökum leiksins.
Því miður er ekki hægt að skilja við þennan leik án þess að minnast á atvik – eða árás – sem varð í stöðunni 73-68 og 1:44 mínútur eftir. Gestirnir eru þá í sókn og leikmaður nr. 26, María Líney Dalmay, kemur hlaupandi inn að körfunni (án bolta) og setur hreinlega olnbogann og skrokkinn í Rut, keyrir hana niður þannig að Rut lá eftir. Á myndbandi sést að Máría eykur hraðann rétt áður en hún keyrir á Rut þannig að Rut skellur í gólfið og liggur eftir. Virtist þarna vera um hefndarárás eftir viðskipti þeirra í næstu sókn Þórs á undan. Leikurinn hélt áfram, skot sem geigaði og gestirnir hirða frákastið. Þá er leikurinn stöðvaður enda lá Rut á gólfinu eftir árásina á meðan sóknin kláraðist. Gestirnir héldu boltanum og hófu nýja sókn þegar 1:08 voru eftir á klukkunni. Atvikið fór framhjá dómurum leiksins og þarf ekki að fjölyrða um að dómur á þessu augnabliki hefði getað skipt sköpum um þróun leiksins á lokamínútunni.
Eins og oftast áður var það Madison Anne Sutton sem var mest áberandi í leik okkar liðs. Hún skoraði 33 stig í kvöld og tók 18 fráköst. Þá má einnig geta þess að 13 sinnum var dæmt á gestina þegar þær brutu á henni. Eva Wium Elíasdóttir skoraði 16 stig, tók fimm fráköst, Heiða Hlín Björnsdóttir með níu stig og átta fráköst, Marín Lind Ágústsdóttir, 8 stig, Rut fjögur, Hrefna þrjú og Karen Lind tvö stig. Marín Lind fór meidd af velli þegar stutt var eftir af leiknum.
Gangur leiksins eftir fjórðungum: 16-18, 21-19 – 37-37 – 18-19, 20-21 – 75-77.
Tölfræði leiksins á vef KKÍ.
Við fengum sendan tengil á myndaalbúm sem Helgi Heiðar Jóhannsson tók á leiknum í kvöld - smellið hér til að opna albúmið.
Hér má sjá myndbrot þar sem áðurnefnt atvik á sér stað - fjær í rammanum, fyrir miðju. María kemur hlaupandi inn í mynd frá vinstri.
Þetta var síðasti heimaleikurinn - og síðasti leikur liðsins - á þessu ári og reyndar meira en mánuður í næsta leik þegar Þór fær topplið Stjörnunnar í heimsókn norður þann 18. janúar.
Á sama tíma og þessi leikur fór fram vann Snæfell útisigur gegn Ármanni og er Þórsliðið því í þriðja sæti núna með níu sigra og þrjú töp. Stjarnan er á toppnum og Snæfell í öðru sætinu.