Jafnt gegn ÍR hjá strákunum og sigur hjá stelpunum gegn FH

Mynd: Þórir Tryggva
Mynd: Þórir Tryggva

Eins og eflaust flestum Þórsurum er kunnugt um þá spiluðu bæði karla og kvennalið okkar Þórsara í gær í deildum sínum í fótboltanum. Stelpurnar spiluðu á undan uppi á brekku og unnu þar góðan sigur á FH-stúlkum 1-0 með marki frá Söndru Maríu Jessen. Sigurinn kom Þór/KA í þægilega stöðu í baráttunni um þriðja sætið í deildinni. Nokkuð sem væri algjörlega mögnuð frammistaða ef mið er tekið af því hversu margar heimastelpur spila í liðinu. Frábært starf sem unnið er á Akureyri í kvennafótbolta.

Rétt eftir sigur stelpnanna hófst leikur strákanna gegn ÍR í hávaða sunnan roki sem á það til að gera vart við sig á haustin á Vís-vellinum. Skemmst er frá því að segja að lokatölur urðu 1-1. ÍR-ingar komust yfir í fyrri hálfleik en okkar menn jöfnuðu með marki frá Marc Sörensen um fimmtán mínútum fyrir leikslok. Heilt yfir verða úrslitin að teljast sanngjörn þó svo sannarlega hafi verið tækifæri hjá báðum liðum til að taka sigurinn. Eftir leikinn situr Þórsliðið áfram í 10. sæti deildarinnar, fjórum stigum á undan Gróttu sem er í því ellefta og fallsæti.