Karfan er tóm.
- Deildir
- Fréttir & Greinar
- Fræðsla & Forvarnir
- Félagið
- Miðlar & Myndefni
- Ábending um heiðursmerki
- Þór TV
Jóhann Kristinn Gunnarsson þjálfari setti saman pistil um liðið okkar, stöðuna, félagið og fólkið. Mikilvæg skilaboð til okkar allra.
Jæja, þá er leikjahlé í Bestu deildinni vegna ferðar U19 landsliðsins okkar til Belgíu þar sem þær taka þátt í lokakeppni EM. Þar eigum við frábæra fulltrúa í Ísfold og Jakobínu og verður gaman að fylgjast með þeim á þessu sterka móti.
Eftir 12 leiki í deildinni er uppskeran hjá okkur 19 stig og við sitjum í fimmta sæti deildarinnar. Eins og alþjóð veit þá settum við okkur markmið að vera í efstu sex sætunum eftir 18 umferðir og taka því þátt í efra umspilinu/úrslitakeppninni sem leikin verður í fyrsta sinn í þessari deild. Eins og deildin er að spilast þá verðum við að einbeita okkur og undirbúa mjög vel fyrir síðustu sex leikina til að ná því markmiði. Deildin er sterk og erfitt að spá fyrir um úrslit fram í tímann.
Nokkur minni markmið fylgdu með og er ánægjulegt að sjá að þegar erum við að ná nokkrum þeirra. Við höfum þegar gert betur en í fyrra á nokkrum sviðum. Við höfum oftar haldið markinu okkar hreinu, við höfum unnið fleiri útileiki og við erum þegar komin með fleiri stig en liðið náði á síðasta tímabili. Það er alltaf gott fyrir leikmenn að sjá framfarir og stíganda og þessi markmið færa okkur kraft inn í seinni hluta mótsins.
Eins er gleðilegt fyrir okkur í Þór/KA að liðið okkar sé komið á þann stall að væntingarnar eru það miklar að öll töp eru „óvænt“ eða „vonbrigði“ eins og að „dragast aftur úr í toppbaráttunni“. Það sýnir okkur að stelpurnar hafa unnið sér inn þá virðingu og sess í deildinni að liðið er klárlega orðið eitt af þeim liðum sem ber að taka alvarlega.
Við getum alltaf gert betur og sérstaklega viljum við gera betur á heimavelli fyrir framan fólkið okkar. Það svíður mikið að hafa tapað þremur heimaleikjum fyrir framan okkar eigin stuðningsfólk og það er klárlega eitthvað sem við viljum bæta fyrir.
Auðvitað var ekki ætlunin að fara inn í leikjapásuna með tap á bakinu en ég veit að allar stelpurnar eru staðráðnar í að nota óbragðið til þess að vinna vel í sínum málum í pásunni og koma tvíefldar til baka. Við erum með flottan og öflugan hóp sem hefur lagt mikið á sig og vill gera enn meira til að skila liðinu okkar á enn betri stað í deildinni þegar upp er staðið í haust.
Tapið gegn ÍBV í gær skrifast ekki á neinn þó umræða í kringum leikina fari oft um víðan völl eftir að þeir fara fram. Þjálfarinn er ábyrgur fyrir genginu og langbest að setja það á hann ef menn vilja endilega hafa einhvern einn ábyrgan. Allt tal og umræður um leikmenn sem vantaði, meiðsli eða eitthvað slíkt hjálpar engum og gerir í rauninni bara lítið úr þeim leikmönnum sem spila leikina. Ekki bara í gær. Alltaf. Liðið okkar í gær var sterkt og getur spilað mjög vel. Allir leikmenn hafa unnið vel fyrir að spila og undirbjuggu sig vel. Leikurinn var ekki nógu góður eins og úrslitin sýna, en samt fengum við færi til að skora mörk. Það bara gekk ekki upp í þetta skiptið. Við lærum af því. Þetta var ekki eini leikurinn sem við spiluðum ekki nógu vel í sumar. Þetta fer í reynslubankann og við komum enn sterkari til baka. Ég er alveg jafn stoltur og ánægður með liðið, leikmennina og gengi liðsins eftir þennan leik, eins og ég var fyrir hann. Þó auðvitað sé leiðinlegt að tapa.
Við notum pásuna til að hvíla þreytta og aðeins meidda líkama og æfa svo vel og undirbúa okkur fyrir komandi átök.
Það er von mín og okkar allra sem standa að liðinu að stuðningsfólkið okkar standi þétt við bakið á okkur í seinni hluta mótsins. Það hefur alltaf jákvæð áhrif að finna fyrir stuðningi fólksins okkar. Stelpurnar leggja gríðarlega mikið á sig innan og utan vallar svo liðið geti tekið framförum og komist hærra. Það er staðföst trú okkar að við getum komið liðinu upp á meðal þeirra bestu. Við erum ekki svo langt frá því. En að kostar mikla vinnu allra. Að ná upp stöðugleika sem stærstu lið deildarinnar hafa umfram okkur er ekki eitthvað sem hægt er að ná fram á einum degi. Það þurfa allir að leggjast á árarnar. Stuðningsfólk, stuðningsaðilar, sjálfboðaliðar, stjórn og stjórnir félaganna hér á Akureyri, þjálfarar og leikmenn. Það er einlæg von mín að allir þessir aðilar fylki sér að baki Þór/KA fyrir seinni hluta mótsins.
Þessi barátta kvennaliðsins okkar hér á Akureyri í efstu deild Íslandsmótsins ætti að skipta okkur öll máli. Kemur okkur öllum við og það ætti að vera keppikefli okkar allra að hún gangi sem best fyrir liðið. Fyrir kvennaknattspyrnu á Akureyri. Fyrir fótboltann hér á Akureyri!
Hjálpumst að við að koma Þór/KA enn lengra og hærra – það er allra hagur og við fáum það margfalt til baka.
Áfram Þór/KA!