Aron mættur aftur í landsliðið: „Ég hef í raun sjaldan verið hungraðri“

Mynd - Skapti Hallgrímsson/Akureyri.net
Mynd - Skapti Hallgrímsson/Akureyri.net

Þórsarinn Aron Einar Gunnarsson var í ítarlegu viðtali við RÚV í vikunni. Þar segist Aron sem er nú orðinn fyrrverandi landsliðsfyrirliði Íslands, skilja ákvörðun Arnars Gunnlaugssonar um að gera Orra Óskarsson að fyrirliða. Hann segist í góðu formi og klár í slaginn. Lesa má viðtalið við Aron í heild sinni hér.

Arnar Gunnlaugsson, landsliðsþjálfari karla í fótbolta, kynnti í vikunni fyrsta landsliðshóp sinn. Hópurinn mun leika tvo leiki gegn Kósóvó í umspili í Þjóðadeildinni síðar í þessum mánuði.

Okkar maður Aron Einar Gunnarsson er í hópnum og er klár í slaginn. „Tilfinningin að vera í valin í hópinn er bara mjög góð. Spennandi hópur. Það verða greinilega breytingar og nýjar áherslur og það er alltaf spennandi þegar það dettur í gang. Ég fann strax mikinn eldmóð og spennu frá Arnari og vissi að það skipti hann miklu máli hvernig fysti hópurinn væri, til að setja standard,“ sagði Aron.

„Ég hef verið að spila vel í Meistaradeildinni hér í Asíu og æfa 100% þannig að ég er klár. Ég hef í raun sjaldan verið hungraðri en akkúrat þessa stundina í að sýna mig og sanna.“

Aron sem hefur leikið 104 landsleiki og flesta þeirra með fyrirliðabandið sagðist í viðtalinu við RÚV skilja og standa með ákvörðun Arnars um að gera Orra Óskarsson að fyrirliða. „Ég vissi alveg að hann hafði hugmyndir um annað og eins og hann útskýrði líka vel að ég þarf ekki fyrirliðaband til að vita að ég er leiðandi í þessum hóp. Þetta er svipuð staða og ég var í þegar ég tók við bandinu og Orri og Hákon vita það að ég er til staðar fyrir þá þegar þeir vilja. Ég held þetta sé rétt þróun. Þetta kannski lætur þá axla meiri ábyrgð og ég var hlyntur þessari hugmynd frá byrjun.“

„Ég held það sé jákvætt að ég sé enn í hópnum sem leikmaður svo plásturinn sé ekki bara rifinn af. Mér finnst gott að geta gefið af mér þegar þess þarf.“