Karfan er tóm.
- Deildir
- Fréttir & Greinar
- Fræðsla & Forvarnir
- Félagið
- Miðlar & Myndefni
- Ábending um heiðursmerki
- Þór TV
„Þetta var svo frábær sigur á miðvikudaginn!“ sagði hin magnaða Lore Devos þegar fréttaritari heyrði í henni hljóðið í aðdraganda leiksins á morgun. Lore hefur reynst félaginu dýrmæt í harðri baráttu í Subway-deildinni og VÍS-bikarnum á leiktíðinni. Hún er næstum alltaf stigahæst leikmanna liðsins, tekur að jafnaði mikið af fráköstum og er áberandi og mikilvæg í öllum aðgerðum liðsins.
Þegar litið er á tölfræðina úr sigrinum gegn Grindavík í undanúrslitum sést hve mikilvæg hún er liðinu. Hún spilaði allar 40 mínúturnar, skoraði 32 stig og tók 12 fráköst. Nýtingin var líka frábær, 83% í skotum utan af velli, sex af átta tveggja stiga skotum fóru ofan í og fjögur af fjórum þriggja stiga. Þá hitti hún átta af níu vítaskotum, eða 89%! Framlagspunktarnir voru 49! Frammistaðan var slík að það er hreinlega við hæfi að nota upphrópunarmerki í lok hverrar setningar!
„Þessi bikarvika er mjög spennandi fyrir liðið og stuðningsfólkið, og við höfum hlakkað mikið til. Stelpurnar eru að spila í þessari höll í fyrsta skipti og í fyrsta skipti í 49 ár sem Þór fer í úrslitaleikinn, það er hreint magnað!“ segir Lore þegar hún er spurð um þátttöku liðsins í þessari hátíð sem staðið hefur yfir í VÍS-bikarnum í vikunni.
Styrkur Þórsliðsins liggur meðal annars í samheldni og liðsheild, sameiginlegum ógnarkrafti sem stelpurnar skapa með stemningu sem jafnvel hefur pirrað suma sem tjá sig um íþróttina. Mynd: Páll Jóhannesson.
Það verður auðvitað ekki hjá því komist í aðdraganda úrslitaleiksins að ræða frammistöðuna í undanúrslitaleiknum. „Þessir útsláttarleikir snúast virkilega um það að gefa allt í leikinn í 40 mínútur. Ég held að við höfum einmitt gert það gegn Grindavík. Danni þjálfari undirbjó okkur mjög vel fyrir það sem koma skyldi og hvað við þyrftum að gera til að vinna þennan leik. Mér finnst allt liðið hafa staðið sig stórkostlega í því að framkvæma það.“
„Við verðum að gera nákvæmlega það sama gegn Keflavík. Vörnin okkar verður að vera frábær því Keflavík er með besta sóknarliðið í deildinni. Leikmenn Keflavíkur eru vel samhæfðar og liðið er með mikla breidd. En ekki gleyma að við höfum sýnt það í vetur að við getum unnið þetta lið!“
Þór var einmitt fyrsta liðið til að sigra Keflavík í Subway-deildinni í vetur þegar liðin mættust í Íþróttahöllinni á Akureyri í lok nóvember, lokatölurnar þá 87-83, fjögurra stiga sigur eins og í undanúrslitaleiknum gegn Grindavík. Eins og stóra tapið gegn Grindvíkingum í Smáranum rúmri viku áður varð góður lærdómur og undirbúningur fyrir stemninguna og spennuna í Laugardalshöllinni á miðvikudagskvöldið verður sigurleikurinn gegn Keflavík heima á Akureyri vonandi einnig það sem hjálpar liðinu og gefur stelpunum sjálfstraust og trú á verkefnið. Af hverju ekki?
Lore Devos og Maddie Sutton í leiftursókn gegn Stjörnunni í átta liða úrslitunum. Mynd: Páll Jóhannesson.
Eftir því var tekið í undanúrslitunum að frekar fámennur hópur stuðningsfólks Þórs, samanborið við fjölmennt lið Grindvíkinga, lét vel í sér heyra og var síst minna áberandi en þeir gulu þrátt fyrir að vera örugglega fimm sinnum færri. Slíkur stuðningur skiptir máli og hefur skipt liðið miklu máli á heimavelli í vetur. „Stemningin og stuðningsfólkið á miðvikudaginn var stórkostlegt og við skulum gera það enn betra á laugardagskvöldið. Við ætlum að skemmta okkur vel, njóta augnabliksins og á slíkum stundum spilum við okkar besta körfubolta. Áfram Þór!“ segir Lore Devos, klár í annan stórleik annað kvöld.
Miðasala fer öll fram í Stubbi og er fólk minnt á að kaupa Þórsmiða þegar kemur að valinu þar. Einnig er boðið upp á barnamiða. Þegar komið er inn í Stubb taka athugulir aðdáendur væntanlega eftir því að miðar Keflavíkur eru ódýrari, en það er vegna þess að Keflavík er með lið í báðum leikjunum. Mikilvægt að velja rétt, velja Þórsmiða.
Það verður að sjálfsögðu rútuferð stuðningsmanna suður á laugardaginn og gert ráð fyrir að leggja af stað frá Hamri kl. 10 að morgni, mæta tímanlega og ná góðum hitting fyrir leik.