Aðalstjórn Þórs boðar til aðalfundar félagsins í Hamri þriðjudaginn 30. apríl kl. 20.
Félagsfólk er hvatt til að mæta á aðalfund félagsins og deilda þess og taka þátt í starfi félagsins, fræðast um starfsemina á liðnu ári og bjóða sig fram til góðra verka.
Um aðalstjórn Þórs og aðalfund félagsins segir meðal annars í lögum félagsins:
9. grein
- A) Reikningsár félagsins er frá 1. janúar til 31. desember. Aðalfundur skal haldinn fyrir 1.
maí ár hvert og telst hann lögmætur sé hann auglýstur opinberlega með minnst sjö daga
fyrirvara.
Á aðalfundi skal formaður gefa greinargóða skýrslu um starfsemi félagsins á síðastliðnu
ári. Einnig skal leggja fram ársreikning félagsins, yfirfarinn og áritaðan af
endurskoðendum, til samþykktar. Áritaður ársreikningur skal liggja frammi á skrifstofu
félagsins til skoðunar fyrir félagsmenn frá þeim tíma er auglýsing um aðalfund birtist.
- B) Aðalstjórn félagsins er skipuð formanni, varaformanni, gjaldkera, ritara, þremur
meðstjórnendum og tveimur varamönnum. Formaður aðalstjórnar skal kosinn sérstaklega.
Sé enginn kjörinna aðalstjórnarmanna á aldrinum 16 til 25 ára skal kjósa einn
áheyrnarfulltrúa ungs fólks í aðalstjórn.
Aðrir stjórnarmenn og varamenn skulu kosnir til tveggja ára þannig að þrír aðalmenn og
einn varamaður eru kosnir hvert ár. Að öðru leyti skiptir stjórnin með sér verkum á fyrsta
fundi eftir aðalfund. Varamenn hafa ávallt rétt til setu á stjórnarfundum með málfrelsi og
tillögurétt og skulu því boðaðir á alla fundi aðalstjórnar.
Að minnsta kosti tveimur vikum fyrir aðalfund skal stjórn félagsins skipa þriggja manna
kjörnefnd, sem hefur það hlutverk að sjá til þess að a.m.k. einn frambjóðandi sé til hvers
þeirra embætta sem kjósa skal í.
Koma má með uppástungur um menn í þessi embætti og skal það gert með samþykki
þeirra. Fara skal fram leynileg kosning liggi fyrir framboð eða uppástungur um fleiri en einn
í formannssæti, fleiri en þrjá í stjórn eða fleiri en einn varamenn.
Aðalstjórn tekur á daglegum rekstri félagsins og fundar eins oft og þurfa þykir.
Framkvæmdastjóri félagsins skal sitja fundi aðalstjórnar. Formenn allra deilda félagsins
hafa rétt til setu á fundum aðalstjórnar, að hluta eða öllu leyti, eftir því sem umfjöllunarefni
hverju sinni gefa tilefni til. Þeir hafa málfrelsi og tillögurétt á fundum aðalstjórnar. Heimilt er
að annar úr stjórn deildar sitji fund aðalstjórnar ef formaður er forfallaður.
Aðalstjórn skal jafnframt minnst einu sinni á ári funda með stjórn hverrar deildar um
málefni og framtíð deildarinnar og skal tímasetning slíkra funda taka mið af starfsemi og
verkefnum hverrar deildar fyrir sig.
Atkvæðisrétt öðlast félagar við 16 ára aldur, hafi þeir greitt árgjald og séu skuldlausir við
félagið.
- C) Dagskrá aðalfundar Þórs skal vera þannig:
1. Kosning fundarstjóra og fundarritara.
2. Skýrsla stjórnar félagsins um starfsemi þess síðastliðið starfsár.
3. Skýrsla gjaldkera, ársreikningur lagður fram tilsamþykktar.
4. Tillögur um lagabreytingar, sem löglega eru fram komnar.
5. Kosningar.
6. Ákvörðun árgjalds.
7. Kosning endurskoðanda.
8. Önnur mál.