Karfan er tóm.
- Deildir
- Fréttir & Greinar
- Fræðsla & Forvarnir
- Félagið
- Miðlar & Myndefni
- Ábending um heiðursmerki
- Þór TV
Emma Karólína sem er einungis 14 ára og 127 daga gömul fór á kostum í sýnum fyrsta meistaraflokksleik í kvöld þegar Þór lagði Ármann að velli 63:58. Emma skoraði 10 stig í leiknum tók 9 fráköst og var með tvær stoðsendingar. Emma var með 100% tveggja stiga skotnýtingu og 50% í þriggja stiga og 3 varin skot. Hún var framlaghæst leikmanna Þórs með 19 framlagspunkta.
Fyrirfram mátti búast við að róðurinn yrði Þórsurum þungur í kvöld þar sem andstæðingurinn er að flestum talið sterkasta lið deildarinnar. Og í lið Þórs vantaði Evu Wium sem er einn af burðarásum liðsins en hún er meidd þessa dagana. Og snemma leiks snéri Karen Lind sig á ökkla og leik aðeins níu mínútur í kvöld.
Þórsarar settu niður fyrstu körfu leiksins þegar Hrefna setti niður þrist eftir aðeins 12 sekúndna leik. Þá tóku gestirnir við sér og skoruðu næstu tíu stigin 3:10 og næsta karfa Þór kom ekki fyrr en um miðjan leikhlutann 5:10. Gestirnir höfðu það sem eftir lifði leikhlutans ágæt tök á leiknum og leiddu með níu stigum 10:19 í lok leikhlutans.
Stelpurnar okkar hófu annan leikhlutann á sama hátt og þann fyrsta en eftir aðeins fimm sekúndna leik setti Karen niður þrist og minnkaði muninn í sex stig 13:19. Gestirnir virtust hafa góð tök á leiknum og hleyptu okkar stelpum sjaldnast nálægt sér minnst varð munurinn fjögur stig 26:30 þegar þrjár mínútur lifðu leikhlutans. Ármann leiddi með 8 stigum í hálfleik en munurinn varð mest tíu stig 26:36.
Í hálfleik bað Daníel Andri leikmenn sína að gefa allt sem þær ættu og skilja allt eftir inni á vellinum og sjá hverju það myndi skila. Óhætt er að segja að stelpurnar hafi orðið við beiðni þjálfarans því síðari hálfleikur var eign Þórs frá A-Ö. Jafnt og þétt hóf Þór að saxa á forskot gestanna og um miðjan leikhlutann komst Þór yfir 40:38 og var það í fyrsta sinn síðan í stöðunni 3:0. Forskot Þórs var mest sex stig en þegar fjórði og síðast leikhlutinn hófst munaði einu stigi á liðunum 48:47.
Stelpurnar okkar voru komnar með blússandi sjálfstraust og allar börðust þær eins ljón sem virtist koma gestunum í opna skjöldu og þegar þrjár og hálfa mínútu var forskot Þórs orðið tíu stig 58:48.
Nokkur spenna varð undir lok leiks en þegar ein og hálf mínúta lifði leiks var munurinn komin niður í tvö stig 60:58. En stelpurnar okkar héldu út og lönduðu fimm stiga sigri 63:58, óvænt kannski en þegar upp var staðið fullkomlega verðskuldað.
Eins og áður segir var Emma Karólína senuþjófur kvöldsins en allt liðið á hrós skilið fyrir frábæra baráttu sem skilaði sigri gegn sterkasta liði deildarinnar.
Framlag leikmanna Þórs: Madison Sutton 15/19/2, Heiða Hlín 14/5/3, Hrefna Ottósdóttir 11/3/1, Emma Karólína 14/9/2, Rut Herner 8/12/1 og Karen Lind 5/1/0. Að auki spiluðu þær Valborg Eva og Kristín María en þeim tókst ekki að skora.
Framlag leikmanna Ármanns: Schekinah Bimpa 28/22/1, Jónína Þórdís 15/11/6, Telma Lind 7 stig, Ingunn Erla 3 stig, Viktoría Líf 2/2/1, Hildur Ýr 2/4/1 og Vilborg Óttarsdóttir 1/1/0.