Ákall til stuðningsmanna - „Fátt skemmtilegra en að sjá Þórsara standa saman“

Það er stór dagur hjá okkar mönnum í handboltanum á morgun þegar karlaliðið okkar mætir HK 2 í Höllinni. Jafntefli eða sigur í leinum þýðir að Þór vinnur deildina og fer beint upp í Olísdeild á næsta tímabili. Líkurnar verða að teljast okkar mönnum í hag því liðin eiga ólíku gengi að fagna í vetur en fyrri leik Þórs og HK 2 lauk með átta marka sigri Þórs.

Fjögurra ára vera í næstefstu deild

Okkar menn hafa leikið í næstefstu deild, Grill 66 deildinni, undanfarin fjögur tímabil, en liðið féll úr Olísdeildinni vorið 2021. Liðið var hársbreidd frá því að fara upp í fyrra en tapaði þá lokaeinvíginu á móti Fjölni.

Leikmenn liðsins hafa undanfarna daga sent stuðningsmönnum ákall á samfélagsmiðlum þar sem fólk er hvatt til að mæta á leikinn. Séu einhverjir í vafa um að mæta eru þeir hvattir til að lesa þessi skilaboð okkar manna!

„Sjáumst í höllinni“

„Kæra Þórsfjölskylda, framundan er síðasti deildarleikur vetrarins. Dæmið er einfalt, með sigri vinnum við deildina og tryggjum okkur sæti í deild þeirra bestu, þar sem við viljum vera. Þess vegna viljum við hvetja alla Þórsara til að taka daginn frá, mæta í höllina, styðja við bakið á okkur og taka þátt í að stíga þetta skref í þeirri vegferð sem við erum í. Sjáumst í Höllinni,“ segir Oddur Gretarsson sem hefur leikið eins og kóngur með liðinu í vetur.

Annar kóngur sem leikið hefur á als oddi í vetur, Halldór Kristinn Harðarson hvetur fólk til að mæta á völlinn og láta vel í sér heyra. „Hæ kæra fjölskylda, ég mun leggja líf mitt og sál í verkefnið okkar 29.mars, ég óska því hér með eftir stuðning frá ykkur frá fyrstu mínútu. Hlakka til að sjá ykkur,” segir Halldór.

Halldór Örn Tryggvason, þjálfari Þórs tekur í sama streng. „Stuðningur ykkar skiptir okkur öllu máli, fátt skemmtilegra en að sjá Þórsara standa saman.“

Heimasíðan hvetur alla til að mæta á leikinn á morgun í Íþróttahöllina á Akureyri kl. 16:15