Daníel Andri áfram með kvennalið Þórs

Daníel Andri Halldórsson í leiknum gegn Snæfelli, á því augnabliki sem sætið í Subway-deildinni var …
Daníel Andri Halldórsson í leiknum gegn Snæfelli, á því augnabliki sem sætið í Subway-deildinni var tryggt. Mynd: Helgi Heiðar Jóhannesson

Körfuknattleiksdeild Þórs hefur samið við Daníel Andra Halldórsson um að stýra kvennaliði félagsins í Subway-deildinni í körfubolta á komandi tímabili. Hlynur Freyr Einarsson hefur verið ráðinn aðstoðarþjálfari.

Daníel átti stóran þátt í að endurvekja Þórsliðið eftir að það var lagt niður um tíma og var ekki með í Íslandsmótinu í tvö ár. Hann tók að sér þjálfun liðsins þegar það var endurvakið, eftir að hafa verið aðstoðarþjálfari karlaliðs Þórs. Daníel Andri er jafnframt yfirþjálfari yngri flokka Þórs og þjálfar yngri flokka hjá félaginu.

Daníel Andri er fæddur 1996 og hefur náð góðum árangri með Þórsliðið. Daníel og stelpurnar enduðu í 5. sæti 1. deildar á fyrsta ári eftir að liðið var endurvakið og missti því af sæti í úrslitakeppninni. Á nýafstöðnu tímabili var liðið í toppbaráttunni og náði 2. sæti í deildinni, sigraði Snæfell í undanúrslitum en tapaði á móti Stjörnunni í oddaleik í úrslitaeinvíginu. Þrátt fyrir það tryggði Þórsliðið sér sæti í úrvalsdeildinni á næstu leiktíð því samþykkt var á þingi KKÍ í þann mund sem úrslitakeppni 1. deildar hófst í lok mars að fjölga liðum í úrvalsdeildinni þannig að tvö lið fóru upp í vor í stað eins liðs áður.

Hlynur Freyr Einarsson (1997) hefur verið ráðinn aðstoðarþjálfari Daníels Andra. Hlynur Freyr hefur undanfarin ár spilað með Þór í 1. deildinni, en hann kom til liðsins frá Tindastóli fyrir tímabilið 2020-21. Hlynur Freyr hefur starfað við þjálfun yngri flokka hjá Þór jafnframt því að spila með karlaliðinu, en staða aðstoðarþjálfara er fyrsta verkefni hans við þjálfun í meistaraflokki.


Daníel Andri klappar stelpunum lof í lófa. Mynd: Páll Jóhannesson.


Hlynur Freyr Einarsson í leik með Þórsliðinu í vetur. Hlynur Freyr verður aðstoðarþjálfari Daníels Andra í Subway-deildinni. Mynd: Páll Jóhannesson.