Eitt stig í Eyjum

Ragnar Óli Ragnarsson er hér í baráttu við Sverri Pál Hjaltested, framherja ÍBV. Myndin er tekin af …
Ragnar Óli Ragnarsson er hér í baráttu við Sverri Pál Hjaltested, framherja ÍBV. Myndin er tekin af Hafliða Breiðfjörð og fengin að láni frá Fótbolta.net.

Meistaraflokkur karla í fótbolta sótti 1 stig til Eyja í dag með því að gera jafntefli 1-1 við ÍBV. Ekki var mikið af dauðafærum í leiknum en mikil barátta án þess þó að leikurinn væri grófur. Okkar menn urðu manni eftir um hálftíma leik þegar Jón Jökull Hjaltason fékk sitt annað gula spjald og þar með rautt þegar hann var aðeins of seinn í tæklingu á leikmann ÍBV. Eyjamenn náðu að nýta sér liðsmuninn og komust yfir í byrjun seinni hálfleiks með algjöru draumamarki þegar leikmaður þeirra tók boltann á lofti utan teigs og nelgdi honum óverjandi uppi í nær hornið, algjörlega óverjandi fyrir Aron í markinu.

Skömmu síðar hins vegar varð jafnt í liðum þegar Óliver Heiðarsson fékk sitt annað gula spjald fyrir brot á Aroni Birki markmanni. Aron var þá að handsama boltann þegar Oliver ætlaði að pota í hann, en var örlítið of seinn og fór í Aron. 

Smá saman hertu okkar menn tökin á leiknum og var það því nokkuð sanngjarnt þegar Sigfús Fannar Gunnarsson skoraði jöfnunarmark okkar manna með góðu skoti utarlega úr teignum í stöngina og inn. 

Fleiri urðu mörkin ekki og verður stig að teljast fín uppskera á þessum erfiða útivelli.