Emma, Katrín, Vaka og Valborg skrifa undir samninga

Daníel Andri Halldórsson þjálfari og Stefán Þór Pétursson, formaður körfuknattleiksdeildar Þórs, og …
Daníel Andri Halldórsson þjálfari og Stefán Þór Pétursson, formaður körfuknattleiksdeildar Þórs, og þær Vaka Bergrún Jónsdóttir, Valborg Elva Bragadóttir, Katrín Eva Óladóttir og Emma Karólína Snæbjarnardóttir handsala samningana.

Fjórar ungar og efnilegar úr kvennaliði Þórs í körfubolta hafa skrifað undir samninga við körfuknattleiksdeild Þórs og verða með Þór í Subway-deildinni á komandi tímabili.

Emma Karólína Snæbjarnardóttir (2008) er bakvörður, 177 sentímetrar að hæð og ein allra efnilegasta körfuboltakona landsins. Emma Karólína æfði á dögunum með U16 ára landsliði Þýskalands og stóð sig frábærlega þar, en hún hefur einnig verið í U16 landsliði Íslands. Emma Karólína á íslenskan föður og þýska móður og getur því spilað með hvoru landsliðin sem er. Hún spilaði að meðaltali tæplega 15 mínútur í leik með Þórsliðinu á nýafstöðnu tímabili, skoraði 5,7 stig að meðaltali í leik og tók 3,7 fráköst. Hún var með 7,1 framlagsstig í leik að meðaltali.

Katrín Eva Óladóttir (2003) er framherji, 175 sentímetrar að hæð. Hún kom til Þórs frá Tindastóli og spilaði með liðinu í 1. deildinni síðastliðinn vetur. Katrín Eva spilaði að meðaltali tæpar níu mínútur í leik á tímabilinu. Katrín Eva kom við sögu í sex leikjum með Þórsliðinu í vetur.

Vaka Bergrún Jónsdóttir (2008) er bakvörður, 172 sentímetrar að hæð og ein af þeim efnilegri í sinni stöðu á landinu. Vaka Bergrún var í leikmannahópi Þórs í 1. Deildinni á síðastliðnu tímabili og spilaði að meðaltali tæpar sex mínútur í leik. Hún hefur verið lykilmaður í liðum Þórs í yngri flokkunum. Hún kom við sögu í 12 leikjum Þórsliðsins í vetur.

Valborg Elva Bragadóttir (2006) er framherji, 174 sentímetrar að hæð. Hún kom til liðs við Þór frá Skallagrími í Borgarnesi þegar kvennalið félagsins var lagt niður. Valborg Elva kom við sögu í 11 leikjum með Þórsliðinu á síðastliðnu tímabili og spilaði að meðaltali um sex og hálfa mínútu í leik.


Valborg Elva Bragadóttir í leik gegn Breiðabliki-b. Mynd: Páll Jóhannesson.


Vaka Bergrún Jónsdóttir í leik gegn Breiðabliki-b. Mynd: Páll Jóhannesson.


Katrín Eva Óladóttir í leik gegn Breiðabliki-b. Mynd: Páll Jóhannesson


Emma Karólína Snæbjarnardóttir í leik gegn Stjörnunni. Mynd: Páll Jóhannesson