Frábærar fréttir, Danni framlengir við Þór og Emma, Valborg og Katrín semja!

Danni og Valborg með samninga sína
Danni og Valborg með samninga sína

Körfuknattleiksdeild Þórs og Daníel Andri Halldórsson hafa náð samkomulagi um að Danni eins og hann er alltaf kallaður, þjálfi meistaraflokk kvenna næstu tvö keppnistímabilin. Óhætt er að segja að um rosalega mikilvæg tíðindi sé að ræða enda Danni náð frábærum árangri með kvennalið félagsins og ekki síður í yngri flokka starfinu sem yfirþjálfari yngri flokka.

Á tíma hans sem yfirþjálfari yngri flokka hefur iðkendafjöldi tvöfaldast og eru nú yfir 200 iðkendur skráðir í körfubolta hjá Þór og hefur hann á þremur árum komið meistaraflokki kvenna upp í efstu deild og alla leið í bikarúrslit. Stefnan er klárlega sett hátt og hærra áfram og er þessi samningur stórt skref í þá átt.

Við sama tilefni skrifuðu þrjár stelpur í meistaraflokki undir samninga við Þór. Emma Karólína Snæbjarnardóttir skrifaði undir tveggja ára samning. En Emma hefur nú þegar vakið athygli fyrir frammistöðu sína í efstu deild þrátt fyrir að vera kornung, fædd 2008. Þá er það félaginu gleði tíðindi að þær Valborg Eva Bragadóttir og Katrín Eva Óladóttir hafa framlengt samninga sína við Þór til eins árs.

Á fyrri myndinn eru þau Stefán Þór og Emma Karólína og þeirri seinni Daníel Andri og Katrín Eva.