„Geggjað að tilheyra félagi eins og Þór“

Undir lok síðasta árs var alþjóðlegur dagur sjálfboðaliðans um allan heim. Þessi dagur hefur verið haldinn frá árinu 1985 þegar Sameinuðu þjóðirnar ákváðu að helga 5. desember öllum sjálfboðaliðum. Sjálfboðaliðar eru oft ósýnilega aflið sem knýr íþróttastarfið áfram og því miður þá gleymist allt of oft að þakka þeim fyrir sitt óeigingjarna framlag.

Íþróttafélagið Þór væri sennilega ekki merkilegt ef ekki væri fyrir sjálfboðaliða og því ætlum við hjá heimasíðunni að ræða við nokkra af okkar frábæru sjálfboðaliðum á næstu vikum. Að þessu sinni er komið að Gesti Arasyni eða Gedda Ara eins og hann er jafnan kallaður.

Hefur alltaf verið Þórsari

Gedda þarf vart að kynna fyrir Þórsurum en hann hefur verið í félaginu okkar í fjöldamörg ár og sett á sig marga hatta. Eiginkona Gedda, Erla Bryndís Jóhannsdóttir er heldur aldrei langt undan en saman mynda þau teymi sem er hreinlega ómissandi í Þór. „Ég hef alltaf verið Þórsari og haldið með Þór frá því ég man eftir mér. Æfði fótbolta upp yngri flokka og kom svo inn í starfið sem foreldri og svo auðvitað sjálfboðastarfið. Þór er bara besta félag í heimi,“ segir Gestur sem hefur undanfarin ár verið liðsstjóri hjá meistaraflokki karla í fótbolta og handbolta.

Sniðugt að draga alla fjölskylduna með í starfið

Þó svo að líf stuðningsmanna Þórs geti verið bæði skemmtilegt og krefjandi segir Gestur hamingjustundirnar fleiri og eftirminnilegri. „Það er erfitt að velja eitthvað eitt augnablik sem stendur uppúr í störfum mínum fyrir Þór. Þetta er oftast drullu skemmtilegt, sérstaklega þar sem ég tek alla fjölskylduna með mér í þetta. Maður hefur kynnst mikið af frábæru fólki í félaginu. Fólk sem er til í að gera allt fyrir félagið. Það er geggjað að tilheyra félagi eins og Þór.“

„Okkur vantar fleiri hendur“

Hann segir mikilvægt að fá fleiri hendur á dekk. „Ég mæli með þessu! Það að fá að vinna fyrir félag eins og Þór hefur gefið mér og mínum helling. Ég hvet fleiri til að taka þátt því það er alltaf pláss fyrir fleiri hendur. Fólk þarf að muna að án sjálfboðaliða væri félagið ekki neitt.“

Ertu með einhver skilaboð til Þórsara að lokum?

„Verum dugleg að styðja við bakið á félaginu okkur þótt árangur sé ekki alltaf eins og við viljum hafa hann. Það vantar alltaf hendur til að aðstoða í öllum deildum og alls ekki vera óhrædd að bjóða fram aðstoð. Þetta er fáránlega skemmtilegt!“