Yfirlitsmynd yfir Þórssvæðið. Mynd: Þorgeir Baldursson, Akureyri.net
Nói Björnsson, formaður Þórs var beðinn um örstuttan pistil í ljósi þeirrar miklu framkvæmdar sem framundan er við nýtt gervigras á Þórssvæðinu. Að sjálfsögðu tók hann vel í og sendi okkur stuttan og hnitmiðaðan pistil.
,,Við erum auðvitað gríðarlega ánægðirmeð að þetta verkefni sé komið á koppinn og þökkum öllum sem hafa setið með okkur og komið að vinnuni við að ná þessu fram og gera þetta að veruleika. Kjörnir fulltrúar í sveitarfélaginu hafa staðið sig mjög vel og ber að halda því til haga. Það er ekkert sjálfgefið að í svona framkvæmd sé farið, fjármunir liggja ekki alltaf á lausu í bæjarfélagi eins og okkar.
Við Þórsarar erum afar stoltir af áfanganum og horfum bjartir fram á veginn varðandi fótboltann, við höfum klárlega verið í vandræðum með svæðið okkar í sumar og höfum fyrir vikið þurft að fækka þeim liðum sem við hefðum viljað tefla fram í yngri flokkum. Með þessum framkvæmdum leysum við stórt vandamál fyrir krakkana okkar ekki síst.
En hér með er sagan alls ekki öll á enda. Í tengslum við byggingu þessa vallar ætlum við Þórsarar ætlum sjálfir að ráðast í stúkubyggingu við þennan nýja völl og þegar þar að kemur munum við blása í lúðra og kalla eftir aðstoð félagsmanna.
Síðast en alls ekki síst er feykilega mikilvægt að við sem í stjórnum íþróttafélaga sitjum séum alltaf með augun opin varðandi tækifæri og þarfir félagsmanna.
Því skal það tekið fram sérstaklega að til að sameina félagið okkar og iðkendur þess enn betur stendur útaf stórt verkefni sem er íþróttahús á svæði Þórs. Það er næsta stóra og mikilvæga verkefni sem við munum vinna að til náinnar framtíðar litið.
Ítreka bestu þakkir til allra sem hafa gert þetta verkefni að veruleika."
Nói Björnsson, formaður Þórs