Karfan er tóm.
- Deildir
- Fréttir & Greinar
- Fræðsla & Forvarnir
- Félagið
- Miðlar & Myndefni
- Ábending um heiðursmerki
- Þór TV
Þórsarar máttu játa sig sigraða í hörkuleik gegn Olísdeildarliði Selfyssinga í 16 liða úrslitum Powerade-bikarsins í handbolta sem fram fór Íþróttahöllinni á Akureyri í kvöld. Niðurstaðan varð eins marks sigur gestanna, 26-27. Kristján Páll Steinsson varði 22 skot í marki Þórs.
Leikurinn var jafn og spennandi og skiptust liðin á að leiða í upphafi leiks, en Selfyssingar náðu þó örlitlu frumkvæði og leiddu með einu til þremur mörkum lengst af fyrri hálfleik. Þeir náðu mest fimm marka forskoti, en staðan 12-16 í leikhléi.
Fljótlega í seinni hálfleiknum höfðu Þórsarar étið upp þennan mun og jöfnuðu í 19-19 þegar 20 mínútur voru eftir af leiknum. Eftir það skiptust liðin á að leiða með einu marki, en jafnt var á öllum tölum upp í 26-26.
Selfyssingar jöfnuðu leikinn þegar um mínúta var eftir. Þórsarar fóru í sókn, tóku leikhlé og freistuðu þess að ná forystunni aftur, en markvörður Selfoss varði skot þegar 19 sekúndur voru eftir af leiknum. Selfyssingar tóku leikhlé og skoruðu sigurmarkið á lokasekúndunum. Svekkjandi niðurstaða eftir hörkuleik hjá okkar mönnum.
Þátttöku Þórsara er þar með lokið í bikarkeppninni þetta árið.
Þór
Mörk: Aron Hólm Kristjánsson 6, Jón Ólafur Þorsteinsson 5, Þormar Sigurðsson 4, Brynjar Hólm Grétarsson 4, Viðar Ernir Reimarsson 4, Sigurður Ringsted Sigurðsson 2, Friðrik Svavarsson 1.
Varin skot: Kristján Páll Steinsson 22 (44,9%).
Refsingar: 6 mínútur.
Selfoss
Mörk: Sölvi Svavarsson 7, Sæþór Atlason 6, Einar Sverrisson 4, Tryggvi Sigurberg Traustason 3, Richard Sæþór Sigurðsson 2, Alvaro Mallols Fernandez 2, Hannes Höskuldsson 2, Jason Dagur Þórisson 1.
Varin skot: Vilius Rasimas 8, Jón Þórarinn Þorsteinsson 10 (40,9%).
Refsingar: 10 mínútur.
Næsti leikur okkar manna er mikilvægur deildarleikur, toppslagur við lið Fjölnis á heimavelli.