Handbolti: Þriðji tapleikur Þórs í röð

Þórsarar töpuðu í kvöld þriðja leiknum í röð á móti þeim liðum sem eru í baráttunni um að fara upp í Olísdeildina þegar þeir sóttu Fjölni heim í Grafarvoginn. Lokatölur 26-25 fyrir Fjölni.

Þetta tap gegn Fjölni í kvöld og sigur ÍR á ungmennaliði Vals þýðir að annaðhvort ÍR eða Fjölnir fer beint upp í Olísdeild og úrslit þurfa að vera veruglega hagstæð í lokaumferðunum til að Þórsarar nái næstefsta sæti þeirra liða sem mega fara upp og þar með heimaleiksréttinum í úrslitaeinvígi. ÍR er nú efst þessara liða með 22 stig og á þrjá leiki eftir. Fjölnir hefur 21 stig og Þór 18, en bæði eiga tvo leiki eftir. Hörður kemur þar á eftir með 16 stig og á fjóra leiki eftir. Hörður mætir ungmennaliði KA á morgun.

Fjölnismenn náðu fjögurra marka forskoti þegar fyrri hálfleikur var hálfnaður og héldu því, staðan 14-10 í leikhléi. Þórsarar náðu aldrei alveg að vinna upp þennan mun, en komust næst því þegar innan við fimm mínútur voru eftir. Þeir höfðu þá minnkað muninn í eitt mark og fengu tækifæri til að jafna, en markvörður Fjölnis var ekki á þeim buxunum. Heimamenn í Fjölni náðu að hanga á forskotinu og hirða bæði stigin.

Fjölnir - Þór 26-25 (14-10)

Fjölnir
Mörk: Haraldur Björn Hjörleifsson 7, Björgvin Páll Rúnarsson 6, Elvar Þór Ólafsson 4, Óðinn Freyr Heiðmarsson 4, Alex Máni Oddnýjarson 2, Viktor Berg Grétarsson 2, Dagur Logi Sigurðsson 1.
Varin skot: Sigurður Ingiberg Ólafsson 13 (34,2%).
Refsimínútur: 6.

Þór
Mörk: Aron Hólm Kristjánsson 7, Arnór Þorri Þorsteinsson 4, Arnþór Gylfi Finsson 4, Sveinn Aron Sveinsson 4, Brynjar Hólm Grétarsson 3, Jón Ólafur Þorsteinsson 3.
Varin skot: Kristján Páll Steinsson 8, Tómas Ingi Gunnarsson 1 (25,7%).
Refsimínútur: 6.

Eins og áður sagði standa ÍR og Fjölnir best að vígi í baráttu liðanna fjögurra sem mega fara upp í Olísdeildina. 

Liðin eiga þessa leiki eftir:

  • Þór: Fram-u (h), Víkingur-u (h).
  • ÍR: Hörður (ú), KA-u (ú), Haukar-u (h)
  • Fjölnir: Valur-u (ú), KA-u (h)
  • Hörður: KA-u (h), ÍR (h), Haukar-u (ú), HK-u (h)

Næst

  • Mót: Grill 66 deild karla
  • Leikur: Þór - Fram U
  • Staður: Íþróttahöllin á Akureyri
  • Dagur: Laugardagur 23. mars
  • Tími: 16:00