Karfan er tóm.
- Deildir
- Fréttir & Greinar
- Fræðsla & Forvarnir
- Félagið
- Miðlar & Myndefni
- Ábending um heiðursmerki
- Þór TV
Jóhann Kristinn Gunnarsson, þjálfari Þórs/KA, stýrði liðinu til sigurs í Garðabænum í fyrstu umferð Bestu deildarinnar. Nú er komið að fyrsta heimaleiknum á morgun, mánudaginn 1. maí, og Jói með skilaboð til stuðningsfólks:
Þá er boltinn byrjaður að rúlla hjá stelpunum okkar í Þór/KA. Eftir flott undirbúningstímabil þar sem stelpurnar lögðu mikið á sig til að vera sem best undirbúnar fyrir tímabilið hófum við leik í Garðabænum á miðvikudaginn. Sterk byrjun í slyddunni og frábær úrslit hjá liðinu. Það er alltaf gott að byrja tímabilið á sigri.
Nú er komið að fyrsta heimaleiknum á tímabilinu þegar Keflavík kemur í heimsókn á Greifavöllinn á mánudaginn 1. maí kl.16:00.
Ég gæti skrifað mjög langan pistil um stelpurnar okkar og hvernig þær hafa vaxið og dafnað sem einstaklingar og ekki síst sem lið. Það er góður andi í hópnum og þær eru staðráðnar að ná þeim markmiðum sem þær hafa sett sér. Ég hef fulla trú á að þær nái þeim. Látum samt hróspistilinn bíða betri tíma. Við ætlum nefnilega að halda okkur á jörðinni fyrir næsta leik.
Eitt af markmiðum okkar í Þór/KA er að auka jákvæðni, bjartsýni og stemninguna í kringum liðið okkar. Fá fleiri á völlinn og efla stuðninginn við stelpurnar. Við vitum að það hjálpar þegar vel gengur og liðið spilar vel og ekki skemmir ef þær spila skemmtilegan fótbolta.
Nú vil ég skora á allt áhugafólk um fótbolta til að fjölmenna á völlinn á mánudaginn og styðja þannig við bakið á stelpunum. Mér finnst þær eiga það skilið. Svo er ég alveg viss um að þetta verður bara fínasta skemmtun í leiðinni. Frídagur, borgarar á grillinu og ungt og spennandi lið sem ætlar sér að gera góða hluti í sumar.
Sjáumst á vellinum.
Áfram Þór/KA!