Karfan er tóm.
- Deildir
- Fréttir & Greinar
- Fræðsla & Forvarnir
- Félagið
- Miðlar & Myndefni
- Ábending um heiðursmerki
- Þór TV
Stórkostleg frammistaða innan vallar sem utan, frábært hugarfar, barátta, sigurvilji og trú leikmanna á verkefnið, ómetanlegir og óviðjafnanlegir stuðningsmenn sem létu Rauða hafið líta út eins og ólgusjó þrátt fyrir að vera allmiklu færri í stúkunni en stuðningsmenn Grindvíkinga. Kennslustund í hugarfari og auðvitað frábærar körfuboltakonur með snjallan og yfirvegaðan þjálfara skiluðu kvennaliði Þórs í körfubolta sæti í úrslitaleik VÍS-bikarkeppninnar eftir glæsilegan sigur á Grindvíkingum í undanúrslitaleik, 79-75, í undanúrslitum í Laugardalshöllinni í kvöld.
Fréttaritari fékk að fljóta með stuðningsmannarútunni suður og eftir hvassviðrið undir Hafnarfjalli var gott að koma í spennuna og eftirvæntinguna í Laugardalshöllinni. Þar á það sama við og í Höllinni okkar á Akureyri, það þarf nokkra til að fylla hana og þó Grindvíkingar væru eðlilega mun fleiri og Rauða hafið frekar smátt í sniðum er það alltaf spurning um gæði en ekki magn. Stuðningssveitin að norðan lét vel í sér heyra frá upphafi, eins og gestirnir úr Grindavík - já, þetta var heimaleikur Þórs.
Fyrsti leikhlutinn var hraður og skemmtilegur, mikið skorað. Þórsarar komust yfir í byrjun, en Grindvíkingar svöruðu og höfðu forystuna lengst af fyrsta leikhluta, munurinn þó aldrei meiri en þrjú stig á annan hvorn veginn. Okkar konur spiluðu bara eins og þær væru á heimavelli enda elska þær stemninguna og lætin úr stúkunni.
Grindvíkingar náðu sex stiga forystu með fyrstu körfunni í upphafi annars leikhluta, en Þórsliðið var ekkert á því að hleypa þeim of langt í burtu. Báðum liðum gekk reyndar brösuglega að skora í fyrri hluta annars leikhluta. Lore Devos kom Þór í tveggja stiga forystu með þriggja stiga körfu þegar leikhlutinn var hálfnaður. Grindvíkingar ef til vill hissa á mótspyrnunni, en okkar konur höfðu líklega bara gott af stemningunni sem skók þær í leiknum fræga gegn Grindvíkingum í Smáranum í nóvember. Eftir stigin þrjú frá Grindvíkingum komu hvorki fleiri né færri en 17 stig frá Þórsurum í röð. Tvö leikhlé Grindvíkinga á þessum kafla breyttu litlu um það. Næsta stig Grindvíkinga kom þegar 2:18 mínútur voru eftir af leikhlutanum.
Annar leikhlutinn átti eftir að reynast dýrmætur þegar upp var staðið og lagði grunninn að því sem koma skyldi.
Báðum liðum gekk brösuglega að skora í upphafi seinni hálfleiksins, en Grindvíkingum tókst þó að minnka muninn aðeins, náðu að spila betri vörn en í fyrri hálfleiknum. Orkustigið var samt áfram hátt Þórsmegin og þær voru ekkert á því að hleypa Grindvíkingum inn í leikinn. Grindvíkingar unnu þó þriðja leikhlutann með fimm stiga mun og forysta Þórs komin niður í sex stig fyrir lokafjórðunginn.
Okkar konur gáfu ekkert eftir, héldu áfram af sama krafti og með sömu baráttu í fjórða leikhluta eins og allan leikinn. Grindvíkingar gerðu atlögu að forystu Þórsara, en alltaf kom svar og yfirvegunin aðdáunarverð þegar á reyndi enda engin ástæða til að gefa eftir og hætta leik þá hæst stendur, verkefnið var klárað af yfirvegun og fagmennsku, forystan hélt og sigurinn í höfn, 79-75 þegar upp var staðið.
Það var einfaldlega eins og Þórsstelpurnar hefðu meiri vilja og trú á verkefninu, erfitt að segja en mögulega vanmat af hálfu Grindvíkinganna sem höfðu unnið tvo örugga sigra á Þórsurum í deildinni í vetur. Hver sem ástæðan er þá náðu Grindvíkingar aldrei upp sínum besta leik, en það er einfaldlega það sem þarf til að fást við þessa ótrúlegu orku og pirrandi geggjuðu stemningu í Þórsliðinu þegar þær ná sér á strik.
Bjarki Ármann Oddsson, fyrrverandi þjálfari karlaliðs Þórs og hluti af háværri og öflugri stuðningssveit Þórs í leiknum, kom með góðan punkt þegar stuðningsfólkið var mætt aftur út í rútu, að drífa sig norður áður en veður versnaði. „Við nálguðumst þennan leik eins og bikarúrslitaleik, en Grindvíkingar eins og undanúrslitaleik.“ Örugglega mikið til í því. Viljinn og baráttan skilaði þessum sigri fyrir utan það sem ekki má gleyma og skal haldið til haga hér, að Þórsliðið er með frábærar körfuboltakonur og þjálfara í sínum röðum þó flestir séu sammála um að Grindavíkurliðið sé kannski betra körfuboltalið, með öflugri leikmenn og meiri breidd. Það er ekki nóg þegar á hólminn er komið og má segja að Þórsliðið hafi mætt í Laugardalshöllina með kennslustund í hugarfari, Power-point úr Þorpinu!
Stórkostleg frammistaða innan vallar sem utan, frábært hugarfar, barátta, sigurvilji og trú leikmanna á verkefnið, ómetanlegir og óviðjafnanlegir stuðningsmenn sem létu Rauða hafið líta út eins og ólgusjó þrátt fyrir að vera líklega fimmfalt færri í stúkunni en stuðningsmenn Grindvíkinga. Kennslustund í hugarfari og auðvitað frábærar körfuboltakonur með snjallan og yfirvegaðan þjálfara skiluðu kvennaliði Þórs í körfubolta sæti í úrslitaleik VÍS-bikarkeppninnar eftir glæsilegan sigur á Grindvíkingum í undanúrslitaleik, 79-75, í undanúrslitum í Laugardalshöllinni í kvöld.
Þór - Grindavík (25-28) (23-9) 48-37 (16-21) (15-17) 79-75
Þór: Lore Devos 32/12/2, Maddie Sutton 17/18/7, Emma Karólína Snæbjarnardóttir 12/2/1, Eva Wium Elíasdóttir 9/6/3, Hrefna Ottósdóttir 5/1/2, Hulda Ósk Bergsteinsdóttir 2/5/0, Heiða Hlín Björnsdóttir 2/3/0
Grindavík: Danielle Rodriguez 27/12/2, Sarah Sofie Mortensen 24/5/1, Eva Braslis 9/9/2, Alexandra Sverrisdóttir 7/4/1, Hulda Björk Ólafsdóttir 6/4/2, Hekla Nökkvadóttir 2/0/3.