Kennslustund í hugarfari og bikarúrslit í kortunum!

Gleði Þórsfjölskyldunnar var mikil og innileg í leikslok þegar ljóst var að stelpurnar okkar eru á l…
Gleði Þórsfjölskyldunnar var mikil og innileg í leikslok þegar ljóst var að stelpurnar okkar eru á leið í bikarúrslitaleikinn.

Stórkostleg frammistaða innan vallar sem utan, frábært hugarfar, barátta, sigurvilji og trú leikmanna á verkefnið, ómetanlegir og óviðjafnanlegir stuðningsmenn sem létu Rauða hafið líta út eins og ólgusjó þrátt fyrir að vera allmiklu færri í stúkunni en stuðningsmenn Grindvíkinga. Kennslustund í hugarfari og auðvitað frábærar körfuboltakonur með snjallan og yfirvegaðan þjálfara skiluðu kvennaliði Þórs í körfubolta sæti í úrslitaleik VÍS-bikarkeppninnar eftir glæsilegan sigur á Grindvíkingum í undanúrslitaleik, 79-75, í undanúrslitum í Laugardalshöllinni í kvöld.

Fréttaritari fékk að fljóta með stuðningsmannarútunni suður og eftir hvassviðrið undir Hafnarfjalli var gott að koma í spennuna og eftirvæntinguna í Laugardalshöllinni. Þar á það sama við og í Höllinni okkar á Akureyri, það þarf nokkra til að fylla hana og þó Grindvíkingar væru eðlilega mun fleiri og Rauða hafið frekar smátt í sniðum er það alltaf spurning um gæði en ekki magn. Stuðningssveitin að norðan lét vel í sér heyra frá upphafi, eins og gestirnir úr Grindavík - já, þetta var heimaleikur Þórs.

Fyrsti leikhlutinn var hraður og skemmtilegur, mikið skorað. Þórsarar komust yfir í byrjun, en Grindvíkingar svöruðu og höfðu forystuna lengst af fyrsta leikhluta, munurinn þó aldrei meiri en þrjú stig á annan hvorn veginn. Okkar konur spiluðu bara eins og þær væru á heimavelli enda elska þær stemninguna og lætin úr stúkunni.

Sautján Þórsstig í röð

Grindvíkingar náðu sex stiga forystu með fyrstu körfunni í upphafi annars leikhluta, en Þórsliðið var ekkert á því að hleypa þeim of langt í burtu. Báðum liðum gekk reyndar brösuglega að skora í fyrri hluta annars leikhluta. Lore Devos kom Þór í tveggja stiga forystu með þriggja stiga körfu þegar leikhlutinn var hálfnaður. Grindvíkingar ef til vill hissa á mótspyrnunni, en okkar konur höfðu líklega bara gott af stemningunni sem skók þær í leiknum fræga gegn Grindvíkingum í Smáranum í nóvember. Eftir stigin þrjú frá Grindvíkingum komu hvorki fleiri né færri en 17 stig frá Þórsurum í röð. Tvö leikhlé Grindvíkinga á þessum kafla breyttu litlu um það. Næsta stig Grindvíkinga kom þegar 2:18 mínútur voru eftir af leikhlutanum.

Annar leikhlutinn átti eftir að reynast dýrmætur þegar upp var staðið og lagði grunninn að því sem koma skyldi.

Aðdáunarverð yfirvegun og forskotið hélt

Báðum liðum gekk brösuglega að skora í upphafi seinni hálfleiksins, en Grindvíkingum tókst þó að minnka muninn aðeins, náðu að spila betri vörn en í fyrri hálfleiknum. Orkustigið var samt áfram hátt Þórsmegin og þær voru ekkert á því að hleypa Grindvíkingum inn í leikinn. Grindvíkingar unnu þó þriðja leikhlutann með fimm stiga mun og forysta Þórs komin niður í sex stig fyrir lokafjórðunginn. 

Okkar konur gáfu ekkert eftir, héldu áfram af sama krafti og með sömu baráttu í fjórða leikhluta eins og allan leikinn. Grindvíkingar gerðu atlögu að forystu Þórsara, en alltaf kom svar og yfirvegunin aðdáunarverð þegar á reyndi enda engin ástæða til að gefa eftir og hætta leik þá hæst stendur, verkefnið var klárað af yfirvegun og fagmennsku, forystan hélt og sigurinn í höfn, 79-75 þegar upp var staðið.

Nálguðust leikinn eins og bikarúrslitaleik

Það var einfaldlega eins og Þórsstelpurnar hefðu meiri vilja og trú á verkefninu, erfitt að segja en mögulega vanmat af hálfu Grindvíkinganna sem höfðu unnið tvo örugga sigra á Þórsurum í deildinni í vetur. Hver sem ástæðan er þá náðu Grindvíkingar aldrei upp sínum besta leik, en það er einfaldlega það sem þarf til að fást við þessa ótrúlegu orku og pirrandi geggjuðu stemningu í Þórsliðinu þegar þær ná sér á strik.

Bjarki Ármann Oddsson, fyrrverandi þjálfari karlaliðs Þórs og hluti af háværri og öflugri stuðningssveit Þórs í leiknum, kom með góðan punkt þegar stuðningsfólkið var mætt aftur út í rútu, að drífa sig norður áður en veður versnaði. „Við nálguðumst þennan leik eins og bikarúrslitaleik, en Grindvíkingar eins og undanúrslitaleik.“ Örugglega mikið til í því. Viljinn og baráttan skilaði þessum sigri fyrir utan það sem ekki má gleyma og skal haldið til haga hér, að Þórsliðið er með frábærar körfuboltakonur og þjálfara í sínum röðum þó flestir séu sammála um að Grindavíkurliðið sé kannski betra körfuboltalið, með öflugri leikmenn og meiri breidd. Það er ekki nóg þegar á hólminn er komið og má segja að Þórsliðið hafi mætt í Laugardalshöllina með kennslustund í hugarfari, Power-point úr Þorpinu!

Stórkostleg frammistaða innan vallar sem utan, frábært hugarfar, barátta, sigurvilji og trú leikmanna á verkefnið, ómetanlegir og óviðjafnanlegir stuðningsmenn sem létu Rauða hafið líta út eins og ólgusjó þrátt fyrir að vera líklega fimmfalt færri í stúkunni en stuðningsmenn Grindvíkinga. Kennslustund í hugarfari og auðvitað frábærar körfuboltakonur með snjallan og yfirvegaðan þjálfara skiluðu kvennaliði Þórs í körfubolta sæti í úrslitaleik VÍS-bikarkeppninnar eftir glæsilegan sigur á Grindvíkingum í undanúrslitaleik, 79-75, í undanúrslitum í Laugardalshöllinni í kvöld.

Þór - Grindavík (25-28) (23-9) 48-37 (16-21) (15-17) 79-75

Stig/fráköst/stoðsendingar

Þór: Lore Devos 32/12/2, Maddie Sutton 17/18/7, Emma Karólína Snæbjarnardóttir 12/2/1, Eva Wium Elíasdóttir 9/6/3, Hrefna Ottósdóttir 5/1/2, Hulda Ósk Bergsteinsdóttir 2/5/0, Heiða Hlín Björnsdóttir 2/3/0

Grindavík: Danielle Rodriguez 27/12/2, Sarah Sofie Mortensen 24/5/1, Eva Braslis 9/9/2, Alexandra Sverrisdóttir 7/4/1, Hulda Björk Ólafsdóttir 6/4/2, Hekla Nökkvadóttir 2/0/3.