Knattspyrna: Fyrsta tapið hjá Þór/KA í Lengjubikarnum

Þór/KA náði ekki að klára riðil 2 í A-deild Lengjubikars kvenna í knattspyrnu með fullu húsi. Stjarnan kom í veg fyrir það, vann í Boganum og fylgir Þór/KA í undanúrslitin.

Stjarnan náði forystunni í fyrri hálfleik með marki úr vítaspyrnu, en Sandra María Jessen jafnaði, einnig úr vítaspyrnu. Bríet Jóhannsdóttir kom Þór/KA yfir á 63. mínútu eftir laglega sókn, en þremur mínútum síðar höfðu gestirnir svarað með tveimur mörkum. Leikmenn Þórs/KA töldu sig hafa jafnað leikinn þegar Margrét Árnadóttir skoraði fallegt skallamark eftir sendingu frá Agnesi Birtu Stefánsdóttur inn á teiginn, en Margrét var dæmd rangstæð. Svekkjandi að fá ekki þetta fallega (löglega) mark skráð.

Fyrsta tap liðsins í riðlinum staðreynd, en þegar upp er staðið skiptu úrslit leiksins ekki máli fyrir stöðu Þórs/KA í riðlinum. Efsta sætið var tryggt áður en kom að þessum leik og Þór/KA mætir Breiðabliki í undanúrslitum á heimavelli eftir viku.

Þór/KA - Stjarnan 2-3 (1-1)

  • 0-1 Gyða Kristín Gunnarsdóttir (25') (v)
  • 1-1 Sandra María Jessen (33') (v)
  • 2-1 Briet Jóhannsdóttir (63')
  • 2-2 Hulda Hrund Arnarsdóttir (64')
  • 2-3 Esther Rós Arnardóttir (66')
  • Leikskýrslan (ksi.is)

Hér má sjá lokastöðuna í riðlinum. Þór/KA endar með 12 stig úr fimm leikjum, Stjarnan fer einnig í undanúrslit, endar með tíu stig í 2. sæti og FH með níu stig í 3. sætinu. Tvær frá Þór/KA eru efstar á lista yfir skoruð mörk í riðlinum. Sandra María Jessen skoraði flest, sjö mörk í fimm leikjum, og Margrét Árnadóttir fimm mörk.