Knattspyrna: Þór/KA með sigur og fer í undanúrslit

Þór/KA vann FH í A-deild Lengjubikarsins í gær. Liðið hefur unnið alla leiki sína til þessa og hefur tryggt sér sigur í riðlinum þótt enn sé einn leikur eftir.

Þór/KA hafði forystuna eftir fyrri hálfleikinn, en það var Margrét Árnadóttir sem náði forystunni fyrir Þór/KA á 30. mínútu. FH jafnaði á 70. mínútu, en aðeins níu mínútum síðar skoraði Sandra María Jessen annað mark Þórs/KA og þar við sat. Sigur í fjórða leiknum í röð í Lengjubikar, sigur í riðlinum og sæti í undanúrslitum. 

Þór/KA mætir Stjörnunni í lokaumferð riðilsins laugardaginn 16. mars kl. 15. Undanúrslitin fara fram laugardaginn 23. mars og þar verður mótherjinn annaðhvort Valur eða Breiðablik. Þór/KA fær heimaleik í undanúrslitum þar sem liðið vann riðilinn og mætir liðinu sem endar í 2. sæti riðils 1. Valur og Breiðablik bítast um sigur í riðli 1, eru bæði með 12 stig, Valur með betri markatölu. Þessi lið mætast fimmtudagskvöldið 14. mars.

.

FH - Þór/KA 1-2 (0-1)

  • 0-1 Margrét Árnadóttir (30'). 
  • 1-1 Breukelen Lachelle Woodard (70').
  • 1-2 Sandra María Jessen (79'). 
  • Leikskýrslan (ksi.is