Knattspyrna: Þór/KA vann í Keflavík

Þór/KA heldur enn traustataki á 3. sæti Bestu deildar kvenna í knattspyrnu eftir eins marks sigur á Keflavík í Keflavík í gær. Glæsimark Huldu Óskar Jónsdóttur gerði útslagið þegar upp var staðið.

Bæði lið fengu ágæt færi í fyrri hálfleiknum, en hvorugu tókst að skora. Harpa Jóhannsdóttir í marki Þórs/KA og Vera Varis í marki Keflavíkur áttu mestan þátt í því að markalaust var eftir fyrri hálfleikinn, báðar búnar að verja nokkrum sinnum frábærlega. Markvörður Keflvíkinga kom hins vegar engum vörnum við þegar Hulda Ósk Jónsdóttir fékk boltann við vítateigshornið vinstra megin, spilaði honum aðeins til hliðar og snéri af miklu listfengi upp í markhornið fjær. Frábært mark hjá Huldu Ósk og það sem skildi á milli liðanna í leikslok.

Keflavík - Þór/KA 0-1 (0-0)

Leikurinn var stór áfangi hjá Huldu Björg Hannesdóttur, en hún hefur nú spilað 200 meistaraflokksleiki fyrir Þór/KA, samanlagt í Íslandsmóti, bikarkeppni, deildabikar, meistarakeppni og Evrópukeppni. Leikurinn í gær var jafnframt hennar 140. leikur í efstu deild.

Nánar á thorka.is.