Karfan er tóm.
- Deildir
- Fréttir & Greinar
- Fræðsla & Forvarnir
- Félagið
- Miðlar & Myndefni
- Ábending um heiðursmerki
- Þór TV
Þórsarar taka á móti liði Skallagríms úr Borgarnesi í lokaumferð 1. deildar karla í körfubolta í kvöld kl. 19:15. Óskar Þór ætlar að ræða við stuðningsmenn yfir kaffibolla klukkutíma fyrir leik í Höllinni, kl. 18:15.
Leikurinn í kvöld er mikilvægur fyrir Þórsliðið, lokastöðuna í deildinni og framhaldið í úrslitakeppni 1. deildar þar sem liðin í 2.-9. sæti berjast um eitt laust sæti í Subway-deildinni og að fylgja KR-ingum upp um deild. Það er því ástæða til að hvetja fólk til að fjölmenna í Höllina og styðja strákana, en ekki síður til að sýna körfuknattleiksdeildinni og kvennaliði félagsins stuðning eftir bikarævintýrið mikla undanfarna daga. Stelpurnar eru nefnilega komnar heim og verða á leiknum í kvöld. Þær þurfa enn og aftur að fá smá aukaorku frá Þórsfjölskyldunni því nú tekur alvaran í deildinni strax við og þær búa sig undir útileik gegn Fjölni á morgun. Sameinumst um að hylla þær þegar færi gefst í leiknum í kvöld.
Geta náð 5. sæti deildarinnar
Við getum líka hjálpað strákunum okkar við að stíga næsta skref með öflugum stuðningi í kvöld. Fyrir lokaumferðina er Skallagrímur í 5. sætinu með 11 sigra, en Þróttur úr Vogum og Þór koma þar á eftir með tíu sigra. Sigur í kvöld getur reynst ótrúlega mikilvægur upp á framhaldið fyrir Þórsliðið því í úrslitakeppni um laust sæti í Subway-deildinni myndi 5. sætið gefa heimavallarréttinn gegn liðinu sem endar í 6. sætinu. Þannig gætu Þór og Skallagrímur mæst í úrslitakeppninni og Þórsarar átt oddaleikinn heima ef á þyrfti að halda. Fyrir ofan Skallagrím er Sindri frá Hornafirði þannig að tap í kvöld gæti þýtt að Þórsarar myndu mæta Sindra í úrslitakeppninni og Sindri með oddaleiksréttinn. Það munar bæði um það hvort fara þarf til Hornafjarðar eða Borgarness í útileiki og hve margir slíkir útileikir gætu orðið.