Körfubolti: Bronsmerki, blóm og klapp fyrir stelpunum

Kvennalið Þórs ásamt stjórn körfuknattleiksdeildar.
Kvennalið Þórs ásamt stjórn körfuknattleiksdeildar.

Kvennalið Þórs í körfubolta sem heillað hefur fjöldann upp úr skónum undanfarna daga var kallað inn á gólfið í leikhléi í leik Þórs og Skallagríms í 1. deild karla í gærkvöld. 

Nói Björnsson, formaður Þórs, og Linda Guðmundsdóttir íþróttafulltrúi afhentu leikmönnum og stjórn körfuknattleiksdeildar Þórs blóm sem virðingarvott fyrir þann frábæra árangur sem liðið náði með því að fara alla leið í úrslitaleik VÍS-bikarsins. Þá voru Daníel Andri Halldórsson þjálfari og Stefán Þór Pétursson, formaður körfuknattleiksdeildarinnar, sæmdir bronsmerki félagsins.

Fréttaritari heimasíðunnar var með símann á lofti eftir báða leiki Þórsliðsins í bikarvikunni, sigurinn á Grindvíkingum á miðvikudag og tapið fyrir Keflavík á laugardagskvöld. Hljóðið var auðvitað mismunandi eftir þessa tvo leiki, en þó skein stoltið í gegn hjá þeim sem rætt var við. Betra er seint en aldrei og hér neðar í greininni er rætt stuttlega við nokkra leikmenn og þjálfara liðsins um verkefnið. 


Kvennalið Þórs og stjórn körfuknattleiksdeildar. Aftari röð frá vinstri: Jóhann Jónsson meðstjórnandi, Hildur Ýr Kristinsdóttir varaformaður, Einar Örn Aðalsteinsson meðstjórnandi, Kasper Nói Stefánsson, sérlegur aðstoðarmaður, Vaka Bergrún Jónsdóttir, Eva Wium Elíasdóttir, Hulda Ósk Bergsteinsdóttir, Maddie Sutton, Lore Devos, Katrín Eva Óladóttir, Daníel Andri Halldórsson þjálfari, Hlynur Freyr Einarsson þjálfari og Stefán Þór Pétursson, formaður körfuknattleiksdeildar. Fremri röð frá vinstri: Jón Ingi Baldvinsson meðstjórnandi, Hrefna Ottósdóttir, Heiða Hlín Björnsdóttir fyrirliði, Karen Lind Helgadóttir og Rebekka Hólm Halldórsdóttir. Myndir: Páll Jóhannesson.

Linda Guðmundsdóttir íþróttafulltrúi og Nói Björnsson, formaður Þórs.

 

Þór - Keflavík (13-26) (21-20) 34-46 (9-23) (24-20) 67-89

Sagt eftir leik

Ógeðslega stolt

Hrefna Ottósdóttir var spurð eftir úrslitaleikinn hvort ekki væri ýmislegt sem liðið gæti tekið með sér úr þessu risaverkefni þrátt fyrir að hafa lent í erfiðum leik og ekki náð titlinum. „Jú, auðvitað. Ég er bara ógeðslega stolt af okkur að hafa komist hingað og gera þetta með stuðningsmönnunum okkar. Ég er bara mjög ánægð með okkur þó ég sé ósátt með niðurstöðuna, þetta er leiðinlegt, en ég er mjög stolt af okkur og mjög ánægð með stuðningsmennina,“ sagði Hrefna eftir úrslitaleikinn.

„Kannski bara bæði,“ sagði Hrefna, spurð um hvort munurinn á leikjunum á miðvikudagskvöld og úrslitaleiknum á laugardagskvöld hafi aðallega legið í andstæðingnum eða í frammistöðu Þórsliðsins. „Þetta er ótrúlega gott lið, líka Grindavík, en Keflavík er bara mjög erfitt lið og þær eru bara geðveikt góðar. Ég held að engin okkar hafi spilað svona stóran leik á ferlinum. Við erum bara í fyrsta og annað skipti hérna í Höllinni,“ sagði Hrefna.

Vildum fara inn á gólfið og skilja allt eftir

Heiða Hlín Björnsdóttir fyrirliði var bæði súr og stolt eftir þetta ævintýri. „Þetta hefur verið geggjuð vika yfir höfuð. Eina sem við vildum fá út úr þessu var að fara inn á gólfið og skilja allt eftir. Fyrri hálfleikur var kannski ekki nógu góður hjá okkur, en við reyndum að sýna okkar besta andlit í seinni hálfleik. Við vitum að við getum unnið þetta lið, við höfum unnið þetta lið, þannig að þetta er súrt og vont í hjartað núna, en við erum með silfur um hálsinn. Ég hef aldrei spilað í Höllinni, þetta er í fyrsta skipti og að gera þetta með liðinu mínu, þetta er bara búin að vera frábær vika yfir höfuð,“ sagði Heiða Hlín skömmu eftir að úrslitaleiknum lauk. Hún samsinnti því að liðið gæti tekið ýmislegt með sér úr verkefninu og verið stoltar af. „Akkúrat. Það er bara smá svekkelsi núna í kvöld. Svo í næstu viku þá föttum við að við vorum topp tvö besta liðið í þessari bikarkeppni. Það er bara nokkuð vel gert eftir að hafa komið upp úr 1. deildinni á síðasta tímabili.“

Við komum aftur á næsta ári og lærum af þessu

Daníel Andri Halldórsson vakti mikla athygli í bikarvikunni fyrir yfirvegun í öllum verkefnum, hvort sem það var að stýra liðinu á hliðarlínunni eða í viðtölum í beinni. Hann vonast til að komast í Höllina aftur á næsta ári og liðið þá reynslunni ríkara. „Keflavík eru ógeðslega góðar í körfubolta og við áttum mikið inni í þessum leik. Ég bjóst við að tapa stærra, en ég er ánægður með stelpurnar sem börðust í 40 mínútur eins og þær gátu,“ sagði Daníel Andri. Um muninn á liðunum sagði hann: „Það eru endalaus gæði í Keflavík. Við kannski ekki tilbúnar, en þær lærðu af bikarúrslitunum í fyrra þar sem Haukar tóku þær nokkuð þægilega. Við komum þá bara aftur á næsta ári og lærum af þessu. “

Þó það séu vonbrigði að tapa bikarúrslitaleik, eftir helgina, þegar rykið er sest, geturðu þá ekki gengið stoltur frá þessu verkefni? „Jú, það held ég. Nýliðar í deild, komumst í bikarúrslit, sláum út nokkur hörkulið. Það er margt jákvætt hægt að taka út úr þessu og ég er stoltur af mínu liði. “

Þór - Grindavík (25-28) (23-9) 48-37 (16-21) (15-17) 79-75

Sagt eftir leik

Við vorum með fólkið okkar með okkur

Hvernig gerðist þetta? Þjálfarinn sem lagði leikinn svona vel upp, stuðningsmennirnir, stemningin í liðinu?

„Já, ég held að það hafi bara verið stemningin. Ég vissi ekki að við yrðum svona klárar á svona stóru sviði. Þórs-identity-ið skein í gegn, berjast meira en hitt liðið, taka bara meira á þeim en þær tóku á okkur. Þær urðu bara frekar litlar snemma í leiknum og við nýttum okkur það,“ sagði Daníel Andri eftir sigurinn á Grindvíkingum á miðvikudag.

Daníel sagðist hafa átt von á aggressívum leik frá Grindvíkingum í hjálparvörn og við vissum að við þyrftum að hreyfa boltann og gera þetta saman, en hann var þó smeykur á köflum að Grindvíkingar næðu að snúa leiknum við. Já, maður er alltaf smá smeykur á móti svona sóknar-powerhouse, að þær komi til baka. En þessar stelpur hafa unnið Benfica og Keflavík og gert þetta á alls konar sviðum. Þannig að við fögnum bara núna og förum svo að gera okkur klár fyrir Keflavík á morgun.“ Þegar leið á leikinn gegn Grindvíkinum hvarflaði að fréttaritara sú hugsun að ef til vill hafi leikurinn gegn Grindvíkingum í Smáranum um miðjan nóvember virkað sem góð æfing fyrir Þórsliðið áður en það mætti í undanúrslitaleikinn. „Já, fín. Eini munurinn var að við vorum með fólkið okkar með okkur núna, ekki á móti 1.200 Grindvíkingum.“

Ég elska þessa Þórsfjölskyldu

„Þetta er bara underdog mentality,“ sagði Eva Wium Elíasdóttir eftir sigurinn í undanúrslitunum, spurð einfaldlega um það hvað gerðist. „Við vorum að berjast allan tímann. Grindavík, þær eru góðar í körfubolta og við erum góðar í körfubolta þannig að við vissum að þetta yrði mikil barátta. Og þetta stuðningsfólk og þetta lið, þetta er svo ógeðslega geggjað. Ég bara elska þessa Þórsfjölskyldu,“ sagði Eva og var fljót að neita því þegar hún var spurð hvort hún hafi aldrei verið hrædd um að missa niður forystuna. „Nei, alls ekki. Ég var með góða tilfinningu allan leikinn. Ég vissi allan tímann að við værum að fara að vinna þennan leik.“

Við vorum tilbúnar fyrir allar uppákomur

„Þetta lið er alveg meiriháttar, stuðningsfólkið er meiriháttar,“ sagði Maddie Sutton eftir sigurinn á Grindvíkingum. „Við vissum að við þyrftum góða orku, spila saman og njóta þess. Við höfum átt í útistöðum við þetta lið og útkoman ekki góð, en við vissum að við spilum okkar besta körfubolta þegar við spilum saman og höfum gaman, og við gerðum það. Við vissum að þær eru með frábært lið og við töluðum um að þær myndu koma með áhlaup, en Danni og Hlynur stóðu sig frábærlega við að undirbúa okkur í vikunni. Mér finnst eins og við höfum verið tilbúnar fyrir allt sem gat komið upp á og það færði okkur sigurinn,“ sagði Maddie Sutton eftir leik á miðvikudagskvöldið.