Körfubolti: Brostnar vonir eftir fimm mínútna martröð

Baldur Örn Jóhannesson, fyrirliði Þórs, á leið í sókn. Colllin Pryor til varnar. Mynd: Páll Jóhannes…
Baldur Örn Jóhannesson, fyrirliði Þórs, á leið í sókn. Colllin Pryor til varnar. Mynd: Páll Jóhannesson.

Eftir ágætan fyrri hálfleik og forystu í leikhléi kom fimm mínútna martraðarkafli í upphafi seinni hálfleik gegn ÍR í 1. deild karla í körfubolta. Fjórtán stiga sigur gestanna niðurstaðan.

Þórsarar voru örlítið seinni í gang en gestirnir, tóku svo vel við sér og leiddu eftir fyrsta leikhluta. ÍR-ingar söxuðu á forskotið og komust yfir, en góður kafli undir lok fyrri hálfleiks skilaði þó þriggja stiga forskoti okkar manna í leikhléi, 44-41.

Ágætis kaflar í fyrri hálfleiknum vöktu vonir um spennandi leik, en þær vonir fjöruðu fljótt út eftir að seinni hálfleikur hófst. Ekkert gekk upp hjá Þórsurum í þriðja leikhlutanum og gestirnir gengu á lagið. Á tæpum fimm mínútum komu 15 stig úr Breiðholtinu, ekkert úr Þorpinu. Gestirnir komnir með gott forskot sem þeir gáfu ekki eftir. Það sem eftir var þriðja leikhluta og allan fjórða leikhluta sveiflaðist leikurinn aðeins fram og til baka, en ekki nóg til að vinna upp forskotið eftir þessar hræðilegu fimm mínútur í upphafi seinni hálfleiksins. 

Harrison Butler, Jason Gigliotti og Baldur Örn Jóhannesson skoruðu megnið af stigum Þórsara. Lamar Morgan var Þórsurum erfiður, skoraði til dæmis fjóra þrista úr fimm skotum í fyrri hálfleik og þrjá úr fimm skotum í seinni, samtals 28 stig að öllu meðtöldu, en reyndar áhugavert að sjá að hann tók ekkert frákast og átti enga stoðsendingu í leiknum.

Þór - ÍR (22-16) (22-25) 44-41 (14-32) (23-22) 81-95

Stig/fráköst/stoðsendingar

Þór: Harrison Butler 24/10/3, Jason Gigliotti 22/13/2, Baldur Örn Jóhannesson 18/9/3, Smári Jónsson 6/3/1, Orri Már Svavarsson 2/1/0, Hákon Hilmir Arnarsson 0/1/0, Andri Már Jóhannesson 0/1/0.

ÍR: Lamar Morgan 28/0/0, Oscar Jorgensen 20/4/1, Hákon Hjálmarsson 13/3/13, Collin Pryor 10/13/5, Zarko Jukic 8/9/8, Friðrik Curtis 7/3/1, Lúkas Stefánsson 5/2/1, Stefán Davíðsson 3/0/0, Magnús Svansson 1/1/0, Aron Orri Hilmarsson 0/0/1.

Ítarleg tölfræði leiksins.
Mynddalbúm - Páll Jóhannesson

Úrslit kvöldsins þýða að Ármann hefur náð Þór, bæði með fimm sigra í 8. og 9. sætinu, en næstu lið fyrir ofan hafa unnið þremur leikjum meira.

Næst

  • Mót: 1. deild karla
  • Leikur: Hrunamenn - Þór
  • Staður: Flúðir
  • Dagur: Föstudagur 16. febrúar
  • Tími: 19:15