Karfan er tóm.
- Deildir
- Fréttir & Greinar
- Fræðsla & Forvarnir
- Félagið
- Miðlar & Myndefni
- Ábending um heiðursmerki
- Þór TV
Þær skorti ekki orkuna, stelpurnar í körfuboltaliðinu okkar, þegar þær spiluðu þriðja leikinn á sjö dögum á höfuðborgarsvæðinu, og lönduðu öruggum sigri á liði Fjölnis.
Eftir nokkra magnaða daga syðra sem lauk með bikarúrslitaleik og svo heimferð daginn eftir mættu stelpurnar á leik hjá karlaliðinu í Íþróttahöllinni á Akureyri í gærkvöld og fengu alvöru klapp frá stuðningsfólkinu. Í dag settust þær svo aftur upp í bílana, brunuðu suður og keyrðu yfir Fjölni, unnu 23ja stiga sigur sem var eiginlega aldrei í hættu eftir góða byrjun Þórsliðsins.
Fjölnir - Þór 65-88
Eitthvað virðist hafa frosið í tölfræðiuppfærslum og því engar upplýsingar birtar hér og nú um stig, fráköst og stoðsendingar.
Þór og Valur eru jöfn með 11 sigra í 21 leik, en Valur vann öruggan sigur á Snæfelli í kvöld. Leikurinn Þórs og Fjölnis skipti í raun ekki neinu máli upp á röð liðanna því til að komast upp í 6. sætið þurftu Þórsarar alltaf að vinna Val í lokaumferðinni. Liðin mætast í Íþróttahöllinni á Akureyri miðvikudaginn 3. apríl. Liðið sem vinnur endar í 6. sæti og liðið sem tapar í 7. sæti.
Þór mun annaðhvort mæta Grindavík eða Njarðvík í átta liða úrslitum Íslandsmótsins, en þessi tvö lið berjast um 2. og 3. sætið í deildinni núna þegar tvær umferðir eru eftir í efri hlutanum.