Körfubolti: Sætt að fara í Höllina með uppeldisfélaginu

Heiða Hlín Björnsdóttir, fyrirliði Þórs, í leiknum gegn Grindavík í Höllinni fyrr í vetur. Mynd: Hel…
Heiða Hlín Björnsdóttir, fyrirliði Þórs, í leiknum gegn Grindavík í Höllinni fyrr í vetur. Mynd: Helgi Heiðar Jóhannesson.
„Stóra stundin er að renna upp!“ Þannig auglýsir körfuknattleiksdeild Þórs leik sem fram fer miðvikudagskvöldið 20. mars. Og það er sannarlega stór stund því stelpurnar okkar í körfuboltanum eru á leið í Laugardalshöllina. Ekki seinna vænna að spila þar áður en ný þjóðarhöll verður byggð!
 
Þórsliðið er eitt af fjórum sem tekur þátt í VÍS-bikarhelginni eins og undanúrslit og úrslit VÍS-bikarkeppninnar eru kölluð. Með öflugum sigri á Stjörnunni í átta liða úrslitum tryggðu stelpurnar okkar sér sæti í undanúrslitum og drógust á móti Grindvíkingum. Hinn leikur undanúrslitanna er á milli Keflavíkur og Njarðvíkur, en sá leikur fer fram fyrr um daginn og hefst kl. 17:15.
 
Í tilefni af þessum stórviðburði heyrði heimasíðan hljóðið í fyrirliða Þórs, Heiðu Hlín Björnsdóttur.
 
Miðasala á leikinn og sala farmiða í rútuferð fram og til baka stendur yfir - sjá neðst í fréttinni.  
 

Heiða Hlín Björnsdóttir í skemmtilegri stöðu í leiknum gegn Grindavík. Mynd: Helgi Heiðar Jóhannesson.

Tilfinningin er frábær!

Heiða Hlín Björnsdóttir er fyrirliði Þórsliðsins og hún er spennt að taka þátt í þessu verkefni. „Síðustu tímabil hjá okkur hafa verið frábær, alltaf einhver skemmtileg og ný markmið sem við náum. Þetta var eitt af þeim og tilfinningin er frábær, það er út af svona stundum sem maður heldur sér í þessu sporti,“ segir Heiða Hlín þegar heimasíðan spyr hana út í hvernig tilfinning það væri að fara með liðið í undanúrslit í bikarkeppninni og fara í sjálfa Laugardalshöllina. „Ég hef aldrei spilað í Laugardalshöllinni og ef mér skjátlast ekki hefur engin af okkur gert það, að minnsta kosti ekki í meistaraflokki. Það verður mjög sætt að gera það í fyrsta sinn með uppeldisliðinu mínu.“


Fjarkinn gefur ekki þumlung eftir. Hér er tekist á um boltann. Mynd: Helgi Heiðar Jóhannesson.

Þórsurum hefur ekki tekist að vinna Grindvíkinga í deildinni í vetur. Fyrri leikurinn fór fram 18. nóvember, við mjög svo óvenjulegar og undarlegar aðstæður. Grindavíkurbær hafði þá nýlega verið tæmdur vegna náttúruhamfaranna sem þar hafa dunið yfir og fengu inni í Smáranum. Eðlilega var mikill meðbyr með Grindvíkingum á þessum tíma og góð mæting á fyrsta heimaleikinn þeirra utan Grindavíkur. Grindvíkingar unnu þann leik með 30 stiga mun. Seinni leikur liðanna fór fram á Akureyri í janúar og þar höfðu gestirnir þrettán stiga sigur. En nú er komið að bikarleik og þá skipta deildarleikir eða staðan í deildinni ekki máli. Það er allt eða ekkert á miðvikudagskvöldið.

„Við höfum spilað tvisvar við Grindavík áður og vitum vel hvernig þær spila og ættum að vera komnar með ágætis tilfinningu fyrir þeim. Það getur allt gerst í svona bikarleikjum,“ segir Heiða Hlín, spurð um tilfinninguna fyrir leiknum sjálfum, hvernig hann muni spilast og hvaða möguleika Þórsliðið á. „Við eigum alverg jafn mikinn möguleika og öll hin þrjú liðin sem eru komin svona langt. Þetta verða 40 mínútur af skemmtilegum, góðum og jöfnum körfuboltaleik. Eins og við höfum oft talað um er stemningin okkar það sem kemur okkur svona langt. Þannig að við lofum brjálaðri stemningu og ábyggilega fullt af stælum,“ segir Heiða Hlín. 

Vill að stúkan verði rauð og falleg

„Það er mikill meðbyr með liði Grindavíkur þessa dagana, eins og allir vita. Því er mjög mikilvægt að allir Þórsarar, nær og fjær, geri sér ferð í Laugardalshöllina. Ekki nóg með það að allir Grindvíkingar munu mæta með læti, þá eru litir Grindavíkur líka blár og gulur, það eru litir sem okkur Þórsurum líkar illa við. Ég og liðið vonum að stúkan verði rauð og falleg, full af alvöru Norðlendingum!“ segir Heiða Hlín Björnsdóttir, fyrirliði Þórs. 

Miðasala og rútuferð í Stubbi

Það er auðvitað ástæða til að hvetja Þórsara heima og að heiman til að fjölmenna í Laugardalshöllina á miðvikudagskvöldið kl. 20, mæta í rauðu og hvítu og styðja stelpurnar til sigurs. 

Miðasala stendur yfir í Stubbi og þar er einnig hægt að kaupa miða í rútuferð fram og til baka. 


„Við lofum brjálaðri stemningu og  ábyggilega fullt af stælum,“ segir Heiða Hlín Björnsdóttir um þátttöku Þórsara í bikarhelginni. Mynd: Helgi Heiðar Jóhannesson.