Körfubolti: Þór tekur á móti Snæfelli í Subway-deildinni

Í kvöld er loksins aftur komið að leik hjá stelpunum okkar í körfuboltanum, eftir tveggja vikna hlé. Í kvöld kemur lið Snæfells úr Stykkishólmi í Höllina. Leikurinn hefst kl. 19:15.

Þórsliðið missti 6. sætið í hendur Íslandsmeistara Vals með tapi á Hlíðarenda í síðustu umferð. Valur hefur unnið níu leiki og er í efsta sæti B-hluta Subway-deildarinnar (6. sæti í heildina), en Þór hefur unnið átta leiki og er sætinu neðar. Bæði lið eiga eftir að leika þrjá leiki. Þór á eftir heimaleikinn gegn Snæfelli í kvöld, síðan útileik gegn Fjölni eftir bikarhelgina og þá heimaleik gegn Val í lokaumferð deildarkeppninnar. Það er því enn ágætis von að hafa aftur sætaskipti við Val. Miðað við stöðuna í efri hlutanum er nánast öruggt að þessi lið mæta Grindavík og Njarðvík í átta liða úrslitum Íslandsmótsins, bara spurning hvor fær hvað. 

Leikurinn í kvöld er sá síðasti hjá liðinu í deildinni fyrir undanúrslitaleikinn í VÍS-bikarkeppninni. Það væri því vel til fundið að fjölmenna í Höllina til að styðja stelpurnar og senda þær með aukaorku og sjálfstraust í leikinn gegn Grindavík í Laugardalshöllinni miðvikudaginn 20. mars. 

Núna

  • Mót: Subway-deildin, B-hluti
  • Leikur: Þór - Snæfell
  • Staður: Íþróttahöllin á Akureyri
  • Dagur: Þriðjudagur 12. mars
  • Tími: 19:15
  • Útsending: Stöð 2 sport, Subwaydeildarrás

Næst

  • Mót: VÍS-bikarkeppnin, undanúrslit
  • Leikur: Þór - Grindavík
  • Staður: Laugardalshöllin
  • Dagur: Miðvikudagur 20. mars
  • Tími: 20:00
  • Miðasala: Stubbur - https://stubb.is/category/basketball