Karfan er tóm.
- Deildir
- Fréttir & Greinar
- Fræðsla & Forvarnir
- Félagið
- Miðlar & Myndefni
- Ábending um heiðursmerki
- Þór TV
Boltaíþróttagreinarnar fjórar þar sem Þór og KA reka kvennalið hafa tekið sig saman og halda sameiginlegt kvennakvöld í Sjallanum annað kvöld, laugardaginn 20. maí. Örfáir miðar eru óseldir. Í framhaldi af kvennakvöldi Þórs og KA og Herrakvöldi Þórs verður svo sameiginlegt ball í Sjallanum frá miðnætti.
Í fyrra var haldið sameiginlegt kvennakvöld handbolta- og knattspyrnuliða kvenna á Akureyri, KA/Þórs og Þórs/KA, og heppnaðist vel. Nú stíga konurnar næsta skref, fara í stærra hús og stækka kvöldið með víðari samvinnu innan Þórs og KA og það eru engin smálið sem bætast við, nýkrýndir Íslandsmeistarar KA í blaki og kvennalið Þórs í körfubolta sem tryggði sér í vor sæti í Subway-deildinni. Það var líka vel til fundið hjá stelpunum í Þór/KA að tylla sér á topp Bestu deildarinnar einmitt núna, nokkrum dögum fyrir kvennakvöldið. Handboltakonurnar í KA/Þór komust í úrslitakeppnina í vor - og tvö lið úr yngri flokkum liðsins hömpuðu Íslandsmeistaratitli.
Kvennakvöldið er semsagt haldið til styrktar fyrir kvennaliðin í blaki hjá KA, körfubolta hjá Þór, handbolta hjá KA/Þór og fótbolta hjá Þór/KA.
Skemmtikraftar verða að verulegu leyti samnýttir á báðum samkomunum og dagskráin almennt svipuð, happdrætti með vinningum upp á rúma milljón og uppboð sem Gummi Ben stýrir þar sem í boði verða málverk eftir Elvu Ragnarsdóttur, Buggyferð með Finni Aðalbjörns og landsliðstreyja frá Söndru Maríu Jessen. Bara spurning um að bjóða hæst til að hreppa hnossið.