Karfan er tóm.
- Deildir
- Fréttir & Greinar
- Fræðsla & Forvarnir
- Félagið
- Miðlar & Myndefni
- Ábending um heiðursmerki
- Þór TV
Kvennalið Þórs í körfubolta spilar í efstu deild – Subway-deildinni – á næsta tímabili. Það verður í fyrsta skipti sem Þór á lið í efstu deild kvenna frá tímabilinu 1977-78. Áratuginn þar á undan var Þórsliðið reyndar sigursælt og vann nokkra titla. Nánar um það í annarri frétt hér á heimasíðunni síðar.
Fjórði leikur Þórs og Snæfells fór fram í Stykkishólmi í gær og þar höfðu okkar stelpur sigur í æsispennandi og framlengdum leik. Jafnt var í lok leiks, 81-81, en okkar stelpur unnu framlenginguna með tíu stiga mun. Lokatölur: Snæfell 90 – Þór 100.
Þó um útileik væri að ræða og Snæfell með öflugt stuðningsfólk var mikill hugur í liðinu og öllum í kringum liðið, eins og sást meðal annars á því að líklega voru um 30-40 Þórsarar í stúkunni með trommur og lúðra og hvöttu liðið áfram. Í samtali við Daníel Andra Halldórsson þjálfara eftir leikinn lagði hann áherslu á að þessi stuðningur hafi skipt gjörsamlega öllu máli, eins og hann orðaði það. Þó það hafi ekki verið rætt beint í viðtölum - skrifast á spyrilinn - þá er ljóst að það skipti stelpurnar og liðiið öllu máli að fá þennan öfluga hóp með sér í Hólminn. Stemningin í stúkunni, hjá stuðningsfólki beggja liða, var líka frábær. Leikurinn, umgjörðin, stemningin og serían í heild kalla eiginlega á gömlu klisjuna: Góð auglýsing fyrir körfuboltann!
Myndaalbúm (sími).
Viðtöl við leikmenn og myndband með brotum úr leiknum eru í vinnslu og munu birtast hér á heimasíðunni síðar í dag.
Eins og áður hefur komið fram breyttust forsendur í miðjum undanúrslitaeinvígjunum í 1. deild kvenna í körfubolta. Fyrir mót og alveg fram í úrslitakeppni voru liðin í 1. deild að keppa um eitt laust sæti í efstu deild, fjögurra liða úrslitakeppni til að skera úr um það. En á þingi KKÍ þann 25. mars var samþykkt breyting á reglugerð og fjölgun liða í efstu deild, sama dag og liðin spiluðu fyrsta leik í undanúrslitunum. Staðfesting á því að reglugerðarbreytingin hefði þau áhrif að tvö lið færu upp var svo birt í frétt á vef KKÍ 30. mars – sjá hér.
Í viðtölum thorsport.is við þjálfara og leikmenn eftir sigurinn í Hólminum kemur hins vegar fram að þetta hafi ekkert verið rætt innan hópsins þó flestar hafi vitað hvernig var í pottinn búið. Einbeitingin var einfaldlega á verkefninu að vinna undanúrslitaeinvígið og koma sér í þá stöðu að keppa við Stjörnuna um sigur í deildinni – og sæti í efstu deild. Einhverjar í hópnum vissu ekki af þessari breytingu og áhrifum hennar – eins og fram kemur í viðtalinu við Heiðu Hlín Björnsdóttur eftir leikinn (sjá í annarri frétt sem er væntanleg).
Leikir liðanna í undanúrslitum voru allir hnífjafnir og spennandi. Þór vann fyrsta leikinn með tveimur stigum eftir að Snæfell hafði leitt allan leikinn. Snæfell vann annan leikinn með fimm stiga mun. Þór vann þriðja leikinn af aðeins meira öryggi en þann fyrsta, munurinn tíu stig þegar upp var staðið.
Leikurinn í Hólminum í gær var sveiflukenndur, leikur áhlaupa, og skiptust liðin á forystunni. Fyrsti leikhluti var jafn, en Snæfell náði þriggja stiga forystu á lokasekúndunni. Í öðrum fjórðungi tóku Þórsarar á sprett og unnu leikhlutann með 11 stigum og voru því átta stigum yfir eftir fyrri hálfleikinn.
Sveiflan fór svo yfir til heimaliðsins í þriðja leikhluta, Snæfell vann hann með 11 stigum og leiddi með þremur stigum fyrir lokafjórðunginn, 63-60. Snæfell byrjaði síðasta fjórðung betur, náði sjö stiga forystu, 67-60, en Þórsarar hleyptu þeim ekki lengra í burtu og munurinn var ekki nema 1-4 stig út leikhlutann.
Lokamínútan í fjórða leikhluta var æsispennandi. Snæfell náði þriggja stiga forystu þegar tæp mínúta var eftir. Þórsarar hittu ekki úr næsta skoti og Snæfell fór í sókn. Öflug vörn Þórsara náði að koma í veg fyrir að Snæfell næði skoti og skotklukkan rann út. Þórsarar fengu boltann þegar rúm 21 sekúnda var á klukkunni og ljóst að nýta þyrfti tímann og ná þriggja stiga körfu til að knýja fram framlengingu.
Lokasóknin var ævintýraleg. Þriggja stiga skot þegar um 10 sekúndur voru eftir geigaði, Tuba Poyraz tók frákastið. Annað þriggja stiga skot þegar fjórar og hálf sekúnda voru á klukkunni, geigaði einnig. Maddie Sutton tók frákastið þegar 2,4 sekúndur voru á klukkunni kom boltanum á Evu Wium Elíasdóttur sem var utan þriggja stiga línunnar og hún náði skoti þegar 0,7 til 0,8 sekúndur voru eftir á klukkunni – og hitti! Lokatölur 81-81 eftir venjulegan leiktíma og framlenging næst á dagskrá.
Flautukarfa Evu gaf okkar stelpum aukinn kraft og sjálfstraust fyrir framlenginguna og virtist um leið slá á baráttuþrekið hjá leikmönnum Snæfells. Fljótlega í framlengingunni náðu Þórsarar forystunni og héldu henni út leikhlutann. Tíu stiga sigur staðreynd þegar framlengingunni lauk.
Það er eiginlega ósanngjarnt að taka einhverjar úr hópnum út úr sem bestu leikmenn Þórs í leiknum því stelpurnar spiluðu sannarlega sem lið og með baráttu og liðsheild vannst þessi sigur í Hólminum í gær. Þórsliðið er byggt upp af öflugum heimastelpum á öllum aldri, blöndu af kornungum og efnilegum leikmönnum og eldri með meiri reynslu, sem skilar sér oft þegar á reynir og spennan verður óbærileg. Þórsliðið er að auki með einn af bestu – ef ekki besta – erlenda leikmann deildarinnar, Maddie Sutton, sem er á sínu öðru tímabili hér á landi, en hún kom til Þórs frá Tindastóli síðastliðið sumar.
Um áramótin var síðan farið í samstillt átak til að bæta við erlendum leikmanni og stefnan þannig sett á efstu deild og sú ákvörðun hefur nú skilað tilætluðum árangri. Hin þýska Tuba Poyraz kom til liðsins í janúar og hefur komið vel inn í þetta öfluga lið.
Þriggja stiga skotin skiluðu okkur 54 stigum í leiknum. Þristarnir komu frá sex leikmönnum! Hrefna Ottósdóttir átti þá flesta, skoraði úr sex þriggja stiga skotum. Heilladísirnar voru þó ekki með henni í lokasókninni í venjulegum leiktíma, en það kom ekki að sök.
Þristar: Hrefna 6, Tuba 4, Heiða Hlín 4, Eva 2, Karen 1, Maddie 1. Í tölfræðiþáttum sést meðal annars munur á hittni úr þriggja stiga skotum. Þar var Snæfell með 8/23 (35%), en Þór með 18/36 (50%). Fráköstin voru líka okkar enda með leikmann sem tekið hefur flest fráköst allra í deildinni í vetur, Maddie Sutton. Maddie hefur tekið 471 frákast í vetur, eða 16,82 að meðaltali í leik. Besti leikmaður Snæfells, Chea Whitsitt er með fleiri fráköst að meðaltali í leik, 17,62, en hefur spilað færri leiki og tekið færri fráköst í heildina. Leikmenn Snæfells tóku 36 fráköst, en Þórsarar tóku 49. Þar kom reyndar Tuba Poyraz inn af krafti og tók 18 fráköst, en Maddie var með 15. Erlendu leikmennirnir í Þór voru mest áberandi þegar litið er á stigaskor og fráköst, Maddie með 39 framlagsstig og Tuba með 34.
Stig/fráköst/stoðsendingar: Maddie 27/15/5 – Tuba Poyraz 23/18/2 – Heiða Hlín 16/2/6 – Eva 11/4/5 – Karen Lind 3/1 - Emma Karólína 2/2 – Rut 0/0/1. Katrín Eva Óladóttir, Valborg Elva Bragadóttir og Vaka Bergrún Jónsdóttir komu ekki inn á í leiknum – en eins og alltaf í leikjum liðsins var bekkurinn virkur og kröftugur í hvatningu til þeirra sem voru inni á vellinum hverju sinni. Það vantar aldrei orku í hópinn hjá þessu liði.
Gangur leiksins eftir leikhlutum:
24-21 • 12-23 • 36-44 • 27-16 • 18-21 • 81-81 • 9-19 • 90-100
Ítarleg tölfrærði leiksins á vef KKÍ.
„Við stóðum bara saman. Við vissum að þetta yrði baráttusería og við vorum bara aðeins grimmari í dag. Við vildum þetta bara miklu meira en þær. Það var bara þannig,“ sagði Daníel Andri Halldórsson í viðtali við thorsport.is eftir leikinn. „Þetta er án ef það skemmtilegasta sem ég hef gert með liðinu. Það er önnur skemmtileg sería fram undan við Stjörnuna. Við ætlum ekkert að fara í frí strax þó við séum búin að tryggja okkur sæti í efstu deild.“ - Sjá viðtal hér neðst í fréttinni.
Danni og stelpurnar fá ekki langt frí því fyrsta leik í úrslitaseríu Þórs og Stjörnunnar hefur verið flýtt þar sem bæði einvígin í undanúrslitum kláruðust í gær. Stjarnan varð deildarmeistari og á því oddaleikinn í einvíginu við Þór ef til kemur. Fyrsti leikurinn verður í Garðabænum miðvikudaginn 5. apríl og hefst kl. 19:15. Ef til oddaleiks hefði komið gegn Snæfelli hefði hann átt að vera á Akureyri þann dag, en Danni og stelpurnar fréttu seint í gærkvöld að leikurinn í Garðabænum hefði verið færður. Leikmenn fá þannig varla tækifæri til að anda á milli þessara einvígja.
Það er semsagt stutt í næsta leik og ástæða til að hvetja okkar fólk - norðan og sunnan heiða - til að fjölmenna í Garðabæinn á miðvikudagskvöldið.
Leikdagar:
Miðvikudagur 5. apríl í Garðabæ.
Laugardagur 8. apríl á Akureyri
Miðvikudagur 12. apríl í Garðabæ
Laugardagur 15. apríl á Akureyri (ef þarf)
Þriðjudagur 18. apríl í Garðabæ (ef þarf)
Núna þegar ljóst er að stelpurnar okkar leika í efstu deild á næsta tímabili er ekki úr vegi að huga að því að það kostar sitt að halda úti öflugu liði, fjölbreytilegir kostnaðarliðir sem liggja þar að baki, búnaður, ferðir, laun og svo framvegis. Þórsfjölskyldan hefur margsannað að þegar á þarf að halda stöndum við saman sem eitt. Ein leið til að sýna það á þessari stundu væri að láta eitthvert smáræði af hendi rakna til körfuknattleiksdeildarinnar. Í leiðinni má benda á að deildin er á svokallaðri almannaheillaskrá hjá skattinum, sem þýðir að gjafir/framlög hærri en 10.000 krónur
Til þess að nýta slík framlög og fá skattaafslátt þurfa gefendur einfaldlega að hafa samband við félagið og koma þeim skilaboðum til stjórnarinnar í netfangið karfan.stjorn@thorsport.is. Það er síðan nóg að millifæra upphæð að eigin vali eða óska eftir því að fá reikning í heimabanka. Framkvæmdastjóri og bókari sjá um að upplýsingar um styrki af þessu tagi fari áfram til skattsins og þar eru þær færðar fyrirfram inn á skattaframtalið á næsta ári. Lágmarksupphæð til að fá skattaafslátt er 10.000 krónur en hámarksupphæð 350.000 krónur hjá einstaklingi og 700.000 krónur hjá hjónum. Sú upphæð sem gefin er kemur til lækkunar á tekjuskattsstofni.
Reikningsnúmer körfunknattleiksdeildar: 0566 - 26 - 6908
Kennitala: 6908881149
Viðtal við Daníel Andra Halldórsson, þjálfara Þórs.