Pílukast: SjallyPally 2025 að hefjast

Stundin er runnin upp!

Stærsta pílumót sem haldið hefur verið á Íslandi fer fram í Sjallanum um komandi helgi!

Akureyri Open 2025 / SjallyPally 2025

Í heildina eru 224 keppendur skráðir til leiks, 192 karlar og 32 konur.

Keppni hefst á morgun (föstudag) kl 14:00 og opnar Sjallinn kl 12:00 fyrir keppendur. Riðlakeppni verður spiluð á morgun (föstudag) og útsláttur á laugardag, keppni hefst kl 10:00 á laugardag.

Skráning hófst í mótið 1.febrúar síðastliðin og fylltist í mótið á 4 mínútum og hafa verið um 50 manns á biðlista frá þeim tíma. 

Mótið hefur stækkað ört síðustu ár en fyrir tveimur árum var mótið haldið í aðstöðu píludeildar Þórs í Laugargötu og voru keppendur þá 70 talsins. Á þeim tímapunkti var stjórnarmönnum píludeildar Þórs ekki til setunnar boðið og ákváðu að söðla um og fengu Dóra Ká með sér í lið að finna staðsetningu fyrir næsta Akureyri Open. Líkt og flestir vita þá var Sjallinn fyrir valinu og mættu 160 keppendur til leiks á síðasta ári og hátt í 400 manns skemmtu sér svo konunglega á úrslitakvöldinu á laugardagskvöldið. Í ár var mótið stækkað eina ferðina enn, 224 keppendur og nú þegar hafa rúmlega 400 miðar selst í Sjallann á úrslitakvöldið. Uppselt er í gryfjuna en það eru lausir miðar á svalirnir, bæði standandi og sitjandi miðar. Mælum með að fólk tryggi sér miða sem fyrst því þeir eru ekki margir eftir. Miðasala fer fram á tix.is

Að mótinu um helgina.

Keppt verður í 32 riðlum í karlaflokki og eru 6 keppendur í hverjum riðli. Efstu 4 keppendur fara áfram í A úrslit og neðstu tvö sætin fara í forsetabikar. Í kvennaflokki er spilað í 4 riðlum og fara efstu 4 konur áfram í 16 manna úrslit.

Úrslitakvöldið hefst kl 19:30 og opnar Sjallinn kl 18:00 með happyhour! 8 manna úrslit karla, undanúrslit karla og svo úrslitaleikur karla og kvenna verður spilaður á stóra sviðinu og það verður án efa mikið fjör og stemning í salnum.

 Á laugardagskvöldið verður öllu tjaldað. Félagarnir Russ Bray og John McDonald mæta í Sjallann og eftirvæntingin er vægast sagt mikil. Russ Bray hefur verið kallari (dómari) á AllyPally (heimsmeistaramótinu í pílukasti) til fjölda ára en er hættur í dag og starfar John McDonald sem kynnir í dag á stærstu mótum í erlendu pílukasti. 

Píludeild Þórs ákvað að brydda upp á þeirri nýjung að hafa góðgerðarleik sem virkar þannig að fyrir hvert 180 sem skorað er (þrjár pílur í T20) safnast 5.000kr sem renna svo allar til Hetjanna, félags langveikra barna á Norðurlandi. Nú setjum við pressuna yfir á keppendur að reyna safna sem mestum pening. Styrktaraðilar góðgerðarleiksins eru Eyjabiti, Höldur, Skógarböðin og Coca-Cola. 

Fyrir þá sem komast ekki í Sjallann á laugardagskvöldið þá verður sýnt beint frá herlegheitunum í beinu streymi á www.visir.is og á Youtube rás Live Darts Iceland. Við mælum svo sannarlega með áhorfi. 

Verðmæti vinninga í mótið er að fjárhæð 3,0 m.kr. og þar á meðal 1,2 m.kr. verðlaunafé sem skiptist á efstu keppendur og miði fyrir tvo í AllyPally fyrir sigurvegara. Húsasmiðjan og Keahotels gefa svo veglega vinninga einnig! Þökkum kærlega þeim fjölmörgu styrktaraðilum mótsins.

Stjórn píludeildar Þórs hvetur alla þórsara að kíkja við í Sjallann á föstudag og laugardag og horfa á bestu pílukastara landsins etja kappi!

Jafnframt þakkar mótsstjórn SjallyPally öllum þeim aðilum sem lögðu hönd á plóg og létu þetta verkefni ganga upp. Þið vitið hverjir þið eruð!