Karfan er tóm.
- Deildir
- Fréttir & Greinar
- Fræðsla & Forvarnir
- Félagið
- Miðlar & Myndefni
- Ábending um heiðursmerki
- Þór TV
Öll ævintýri taka enda um síðir. Bikarævintýri kvennaliðs Þórs lauk í kvöld þegar stelpurnar mættu besta liði landsins í úrslitaleik VÍS-bikarsins og máttu játa sig sigraðar þrátt fyrir að hafa lagt allt sitt í leikinn með stórkostlegum stuðningi úr stúkunni. Ef vel er á haldið er ævintýrið samt mögulega bara rétt að byrja!
Öfugt við mörg stuðningsmannalið sem tapa úrslitaleik sýndi Þórsfjölskyldan sigurvegurunum og okkar eigin stelpum þá virðingu að vera áfram í stúkunni þar til verðlaunaafhendingu lauk. Það er virðingarvert og virðist ekki sjálfsagt hjá öllum alltaf. Keflvíkingar unnu vel fyrir sigrinum og bikarmeistaratitlinum og óskum við þeim til hamingju með titilinn. Silfrið er Þórsara í ár, en hver veit hvað gerist næst?
Fyrsti leikhluti byrjaði kröftulega, liðin skiptust á forystunni, en í stöðunni 13-10 fyrir Þór var eins og lukkudísirnar hefðu þurft að bregða sér af bæ til að sinna öðru verkefni. Í tæpar fimm mínútur í fyrsta leikhluta skoruðu Keflvíkingar 16 stig í röð og breyttu stöðunni í 13-26. Þórsstelpurnar náðu þó aftur vopnum sínum í öðrum leikhluta, skutluðu niður nokkrum þristum og unnu hann með einu stigi, munurinn því 12 stig eftir fyrri hálfleikinn, 34-46.
Ef til vill segir það eitthvað um muninn á þessum liðum og breiddina sem Keflavíkurliðið býr yfir að á meðan Lore Devos var stigahæst á vellinum í fyrri hálfleik með 16 af 34 stigum Þórs höfðu sjö leikmenn Keflavíkur skorað á bilinu 5-10 stig hver. Í körfubolta eru 12 stig alls ekki óyfirstíganlegur munur, ef lið nær góðu áhlaupi. Það kom þó ekki hjá Þórsliðinu heldur voru Keflvíkingar áfram frískari í byrjun seinni hálfleiksins og munurinn orðinn 20 stig þegar þriðji leikhluti var rúmlega hálfnaður.
Skotnýting liðanna var svipuð, en það sem munaði mestu í tölfræðiþáttunum voru stolnir boltar Keflvíkinga og tapaðir boltar Þórsliðsins. Þó ef til vill sé ekki hægt að benda á eitthvert eitt atvik hér eða þar hlýtur að vera umhugsunarvert að annað liðið í körfuboltaleik fái sitt fyrsta víti þegar þriðji leikhluti er nær búinn. Liðin höfðu spilað í rúmar 29 mínútur þegar Þórsarar fengu loks víti. Kannski er það virðing leikmanna og dómara fyrir hinu liðinu, kannski eitthvað annað, eða blanda af þessu tvennu. Áhugavert síðan að þegar vítin fengust loksins þá nýttu Þórsstelpurnar þau vel, skoruðu úr níu af níu.
Hvað sem því líður má segja að Keflvíkingar hafi kaffært Þórsliðið í þriðja leikhlutanum og komið níu fingrum fyrir á bikarnum. Ótrúleg tilviljun að stigaskorið í þriðja leikhlutanum var það sama og þegar Þórsliðið keyrði yfir Grindvíkinga (23-9) í öðrum leikhlutanum í undanúrslitaleiknum, nema hvað tölurnar snérust við. Núna voru það Keflvíkingar sem skoruðu 23 stig á móti níu stigum Þórs.
Það var hins vegar eftirtektarvert að þrátt fyrir að munurinn væri í raun orðinn óyfirstíganlegur þegar komið var fram í fjórða leikhluta hættu Þórsstelpurnar aldrei að berjast, reyndu hvað þær gátu, vel studdar af fjölmennu liði stuðningsfólks. Athygli vakti einnig þegar stutt var til leiksloka og munurinn um og yfir 20 stig var ógnarsterkt byrjunarlið Keflvíkinga enn inni á vellinum í stað þess að gefa öðrum fleiri mínútur. En það er auðvitað ákvörðun þjálfara þeirra og eflaust ástæður fyrir því. Kannski virðing og ótti við orku og áhlaup sem hefði getað komið frá Þórsliðinu.
Þór - Keflavík (13-26) (21-20) 34-46 (9-23) (24-20) 67-89
Lore Devos var eins og oftast áður stigahæst Þórsara, skoraði 20 stig, Maddie Sutton 15 stig auk þess að taka 11 fráköst og Hulda Ósk Bergsteinsdóttir skoraði 14 stig.
Þór: Lore Devos 20/7/9, Maddie Sutton 15/11/2, Hulda Ósk Bergsteinsdóttir 14/6/0, Eva Wium Elíasdóttir 10/3/5, Hrefna Ottósdóttir 3/4/1, Heiða Hlín Björnsdóttir 3/3/0, Emma Karólína Snæbjarnardóttir 2/2/1, Vaka Bergrún Jónsdóttir 0/1/0.
Keflavík: Daniela Wallen 15/12/6, Elisa Pinzen 15/5/9, Birna Benónýsdóttir 15/2/2, Anna Ingunn Svansdóttir 11/2/0, Sara Rún Hinriksdóttir 10/6/5, Thelma Dís Ágústsdóttir 7/3/2, Emelía Ósk Gunnarsdóttir 7/3/0, Anna Lára Vignisdóttir 4/2/0, Gígja Guðjónsdóttir 3/0/0, Lovísa Sverrisdóttir 2/0/0, ygló Kristín Óskarsdóttir 0/1/1.
Eins og sjá má á þessari myndrænu framsetningu á nokkrum tölfræðiþáttum eru Keflvíkingar með 19 stolna bolta á móti fjórum, og Þór með 23 tapaða bolta á móti níu. Keflvíkingar tóku ívið fleiri fráköst og skotnýtingin er svipuð.
Smellið á myndina til að skoða ítarlega tölfræði leiksins.