Stórsigur á Stólunum

Markagleði þegar ísinn var brotinn með marki Dominique Randle. Mynd: Skapti Hallgrímsson - Akureyri.…
Markagleði þegar ísinn var brotinn með marki Dominique Randle. Mynd: Skapti Hallgrímsson - Akureyri.net.

Þór/KA hífði sig upp í 4. sæti Bestu deildarinnar með fimm markaa sigri á Tindastóli á Þórsvellinum í gærkvöld. Sandra María Jessen fór handleggsbrotin af velli í lok fyrri hálfleiks. Liðsfélagar hennar svöruðu með fimm mörkum á síðasta hálftíma leiksins.

  • 1-0 - Dominique Randle (62’).
  • 2-0 - Karen María Sigurgeirsdóttir (64’). Stoðsending: Hulda Ósk Jónsdóttir
  • 3-0 - Una Móeiður Hlynsdóttir (68’). Stoðsending: Hulda Ósk Jónsdóttir.
  • 4-0 - Hulda Ósk Jónsdóttir (79’). Stoðsending: Hulda Björg Haannesdóttir.
  • 5-0 - Hulda Ósk Jónsdóttir (víti) (90+1’).

Stærstu tíðindi fyrri hálfleiksins voru um leið mikið áfall fyrir Þór/KA liðið. Sandra María átti þá skot að marki sem fór í varnarmann og þaðan hrökk boltinn aftur í vinstri hönd hennar. Sandra María þurfti að fara af velli og var flutt með sjúkrabíl á slysadeild. Gríðarlegt áfall fyrir hana sjálfa fyrst og fremst, en hafði greinilega og eðlilega mikil áhrif á liðsfélagana líka.

Gestirnir náðu að skora snemma í seinni hálfleiknum, fyrirgjöf og skalli, en dæmt brot á sóknarmann Tindastóls. Skiptar skoðanir um réttmæti. Eftir að okkar stelpur náðu að hrista af sér áfallið vegna meiðsla Söndru Maríu yfirtóku þær leikinn og létu ekkert stöðva sig.

Mörk í regnbogans litum

1-0 – Dominique Randle (62‘)
Jakobína tekur horn, varnarmenn Tindastóls ná ekki að koma boltanum frá og hann fellur fyrir Dominique í miðjum teignum. Hún á gott skot með vinstri og nær forystunni fyrir Þór/KA með sínu fyrsta marki fyrir Þór/KA og auðvitað þar með einnig sínu fyrsta marki í Bestu deildinni.

2-0 – Karen María Sigurgeirsdóttir (64‘)
Örstuttu eftir fyrsta markið fylgdi kné kviði og staðan allt í einu orðin 2-0. Amalía Árnadóttir á sendingu upp hægri kantinn þar sem Hulda Ósk tók við boltanum, fór inn í teiginn og sendi á Karen Maríu sem renndi boltanum í markið alveg út við stöng.

3-0 – Una Móeiður Hlynsdóttir (68‘)
Hulda Ósk sendi boltann fram völlinn þar sem Una Móeiður skallaði boltann áfram og var síðan á undan varnarmanni Tindastóls í boltann og renndi honum svo framhjá markverðinum.

4-0 – Hulda Ósk Jónsdóttir (79‘). Stoðsending: Hulda Björg Hannesdóttir
Hulda Björg átti sendingu fram á Huldu Ósk sem lék upp að teignum og snaraði fram skærunum á móti varnarmanni Tindastóls, fyrst á röngunni, svo á réttunni, aðeins til hægri og sendi boltann svo með skemmtilegum snúningi í markið.

5-0 – Hulda Ósk Jónsdóttir (víti) (90+2‘)
Hulda Ósk skoraði úr víti eftir að varnarmaður Tindastóls hafði knúsað boltann í markteignum. Hulda Ósk á reyndar sjálf höfundarrétt að aðdragandanum, fór skemmtilega framhjá varnarmanni og renndi á Bríeti inn í markteignum, skot Bríetar varið, Amalía ætlar að pota boltanum í markið en hann fer í fangið á varnarmanni Tindastóls.

Þór/KA er í 4. sæti eftir fyrri hluta hinnar hefðbundnu deildarkeppni með 15 stig. 

Hvað er fram undan?

Næsti leikur liðsins verður einnig heimaleikur, þegar Stjarnan kemur norður sunnudaginn 25. júní. Þar á eftir kemur svo útileikur gegn Keflavík 4. júlí og heimaleikur gegn ÍBV 9. júlí. Eftir þessa þrjá næstu leiki kemur svo landsleikjahlé og væntanlega einnig hlé vegna frestunar leikja í tengslum við lokamót EM U19 landsliðsins.

Meira á thorka.is.