Þórsarar þjófstörtuðu

Í ár eru liðin 80 ár frá því að íþróttahúsið við Laugargötu var tekið í notkun og þar með varð langþráður draumur íþróttamanna á Akureyri loks að veruleika. Íþróttafélögin á Akureyri höfðu árum saman barist fyrir bættri aðstöðu í bænum og þá sérstaklega fyrir íþróttahúsi. Félögin stóðu fyrir íþróttamótum og skemmtunum lengi vel og létu ágóðan gjarnan renna í íþróttahússjóð.

Þórsarar þjófstörtuðu. Já Þórsarar þjófstörtuðu fimmtudaginn 10. febrúar 1944 en þá var haldin fyrsta æfingin í hinu nýja íþróttahúsi, sem var að vísu óupphitað, en leikfimiflokkur Þórs undir stjórn Tryggva Þorsteinssonar, fékk sérstakt leyfi til þessa. Byggingu hússins var þó hvergi nærri lokið. Alls tóku 17 Þórsarar þátt í þessari æfingu þeir voru; Jón Kristinsson, Tómas Árnason, Hugi Ásgrímsson, Júlíus B. Magnússon, Ragnar Emilsson, Bjarni Magnússon, Magnús Guðmundsson, Albert Sigurðsson, Gunnar Óskarsson, Ellert Finnbogason, Finnur Björnsson, Jón Aspar, Ólafur Gunnarsson, Jónas Jónsson, Svan Friðgeirsson, Sigurður Samúelsson og Hreinn Óskarsson.

Upphafið.

Félagið hóf svo formlegar æfingar í húsinu fimmtudaginn 19. október 1944 (í dagbók segir „hófu kennslu“). Félaginu var úthlutað tveimur kvöldum í viku eða alls 8 tíma. Leikfimi karla kenndi Tryggvi Þorsteinsson og leikfimi kvenna var í umsjá Steinunnar Sigurbjörnsdóttur. Þá kenndi Sverrir Magnússon handknattleik karla og Tryggvi handknattleik kvenna. Alls æfðu 80 félagar úr Þór íþróttir í hinu nýja húsi á vegum félagsins þarna fyrsta veturinn.

Þegar æfingar hófust í húsinu gaf Íþróttafélagið Þór stökkdýnur til nota í húsinu og félagar í handknattleiksflokki Þórs gáfu mörk úr járni.

Nú 80 árum síðar er Íþróttafélagið Þór með umtalsverða starfsemi í húsinu en þar hafa pílu- og hnefaleikadeildir sýna aðstöðu.

Einar Gunnlaugsson á æfingu í íþróttahúsinu við Laugargötu

Handboltaæfing