Ungur Þórsari í markmannsakademíu í Brasilíu

Þórsarinn Lucas Vieira Thomas er um þessar mundir staddur í Brasilíu og mun dvelja þar næstu tvo mánuðina við stífar æfingar í knattspyrnuakademíu sem leggur alla áherslu á þjálfun markvarða og þykir ein öflugasta markvarðaakademía Brasilíu.

Lucas er 15 ára gamall, er á eldra ári í 3.flokki, en síðastliðið sumar varði hann markið í Íslandsmeistaraliði Þórs í 3.flokki, eftir að Sigurður Jökull Ingvason var seldur til Midtjylland um mitt sumar en Lucas lék einnig nokkra leiki með 2.flokki.

Akademían sem um ræðir heitir RGM Academy. Hún er í eigu stofnendanna tveggja sem eru markmenn sem eiga langan leikmannaferil í háum gæðaflokki; Brasilíumennirnir Rodrigo Galatto, sem er hættur og lék meðal annars fyrir Gremio og Atletico Paranaense í heimalandinu og Malaga á Spáni annars vegar og Marcelo Grohe, hins vegar en sá síðarnefndi er enn að spila og leikur í efstu deild í Sádi-Arabíu og á tvo landsleiki að baki fyrir brasilíska A-landsliðið.

Lucas mun ganga í gegnum sérstakt einstaklingsprógram þar sem hann mun æfa tvisvar sinnum á dag undir beinni handleiðslu Galatto auk tveggja aðstoðarmanna hans og er lagt áherslu á bæði tæknilega og líkamlega þróun.

Lucas kom til Brasilíu sunnudaginn 1. desember og hóf þjálfun, degi síðar, með ítarlegri líkamlegri skoðun og hjartalínuriti. Morgunæfingin innihélt léttar æfingar, á meðan síðdegisæfingin var fyrsta tækniæfing hans. Lucas mun dvelja í Brasilíu fram í byrjun febrúar og taka þátt í að minnsta kosti 60 æfingum sem munu án efa hafa jákvæð áhrif á færni hans.

Við óskum Lucasi til hamingju með þetta flotta tækifæri og hlökkum til að fá hann aftur í Þorpið í febrúar.