Yann Affi í Þór

Fílbeinsstrendingurinn Yann Emmanuel Affi hefur skrifað undir samning við knattspyrnudeild Þórs og mun leika með Þórsliðinu í Lengjudeildinni á komandi leiktíð.

Affi er 29 ára gamall varnarmaður sem hefur leikið stærstan hluta ferils síns í Hvíta-Rússlandi en hann kemur til Þórs frá stóru félagi þar í landi, BATE Borisov. Áður lék Affi með Torpedo BelAz, Dynamo Brest og Gomel í Hvíta-Rússlandi og varð bikarmeistari með Gomel 2022.

Affi hefur einnig leikið í Finnlandi þar sem hann lék með FC Oulu í finnsku úrvalsdeildinni árið 2023.

Hann gerir tveggja ára samning við Þór.

Við bjóðum Affi velkominn í Þorpið og hlökkum til að fylgjast með honum í baráttunni í sumar.