Karfan er tóm.
- Deildir
- Fréttir & Greinar
- Fræðsla & Forvarnir
- Félagið
- Miðlar & Myndefni
- Ábending um heiðursmerki
- Þór TV
Það vakti undrun hjá mörgum þegar Þórsarinn og markvörðurinn Sveinbjörn Pétursson samdi við ísraelska félagið, Hapoel Ashdod. Sveinbjörn varð þar með fyrsti íslenski handboltamaðurinn til að leika í Ísrael. Heimasíðan tók púlsinn á Sveinbirni, eða Bubba eins og hann er jafnan kallaður.
Sveinbjörn sem er fæddur árið 1988 er uppalinn hjá Þór og fór í gegnum hinn fræga Gunna Mall skóla í handboltanum. Hann lék sína fyrstu meistaraflokksleiki með Þór, en svo með Akureyri Handboltafélagi, áður en hann fór til HK. Hann kom svo aftur heim áður en hann samdi við Aue í Þýskalandi 2012 þar sem hann var í nokkur ár. Eftir það kom hann heim til Íslands og lék með Stjörnunni áður en hann fór aftur út til Þýskalands, þaðan sem hann hélt til Ísrael.
Elskar lífið í Ísrael
„Lífið hérna er mjög gott fyrir mig og unnustu mína, við búum við strönd í borg sem telur um 220 þúsund manns. Það er samt enginn stórborgar fílingur sem við kunnum mjög vel við.Það er gott að geta bara rölt yfir eina götu, farið á ströndina og stokkið í heitan sjóinn. Annars er mikið mannlíf hérna og flest kaffihús og veitingastaðir ávallt þétt setin. Ég kann mjög vel við hvernig þetta er allt saman eftir talsvert öðruvísi stemningu í Þýskalandi,“ segir Sveinbjörn sem var á leið í útileik með liðið sínu þegar við heyrðum í honum.
Veisla fyrir sælkera
Sveinbjörn sem er mikill sælkeri segir matarmenningu Ísraels hafa komið þægilega á óvart. „Okkur hefur líka verið tekið ótrúlega vel af fólkinu hérna og vel hugsað um okkur, á hátiðsdögum hefur okkur verið boðið heim til leikmanna og þeirra fjölskyldna og fengið að kynnast þeirra siðum og ekki síður að kynnast þeirra eldamennsku. Fyrir matmann eins og mig sjálfan hefur það verið algjör veisla að koma hingað.“
En afhverju Ísrael? „Það var nú bara eins hefðbundið og það gerist í handboltanum, það datt fyrirspurn inná borð til míns umboðsmanns að þetta lið væri að leita að markmanni. Þeir skoða síðan video og eftir það fara bara hefðbundnar viðræður af stað, ég varð strax mjög spenntur þegar ég heyrði af þessu og virkilega ánægður að þetta hafi gengið upp.“
Var engin hræðsla við að flytja á þetta svæði?
„Í stuttu máli nei, en ég heyrði hljóðið í einum þýskum sem ég kannast við sem hafði spilað hérna og einum Serba sem var í liðinu fyrir og ég spila með í dag. Hann spilaði með Oddi okkar Gretars í Balingen og skipti hingað yfir fyrir einu ári. Eftir þau samtöl þá var ég frekar rólegur og fékk að heyra hvernig þetta er raunverulega hérna.“
Fjölskyldan staðið þétt við Bubba
Hann segir fjölskylduna standa þétt vikið bakið á sér. „Fjölskyldan hefur bara verið full stuðnings frá því ég kom, kannski smá hissa í byrjun þegar ég sagði þeim hvað væri að gerast, því vikunum áður leit út fyrir að við værum á leiðinni til Noregs eða Danmörku, þannig að þetta var smá U-beygja. En mamma, pabbi og Hiddi bróðir minn hafa ávallt verið mínir helstu stuðningsmenn í gegnum minn feril og ávallt stutt mig og mínar ákvarðanir.“
„Þau hafa líka alltaf verið dugleg að mæta og sjá mig spila, þau hafa lagt á sig endalausa km í gegnum árin og verð ég þeim ávallt þakklátur fyrir að hafa stutt mig eins og þau hafa gert. Unnusta mín Saskia var auðvitað með í spilinu frá fyrsta degi og hún var jafn spennt og ég þegar þetta kom upp, eftir samtölin við strákana var allur efi frá og við bæði klár í slaginn.“
„Gunni Mall lagði okkur strákunum lífsreglurnar“
En þrátt fyrir að vera í Ísrael fylgist Bubbi vel með Þór. „Það hefur verið gaman að fylgjast með starfinu þar og stefnunni sem hefur verið tekinn í að byggja liðið á ungum strákum úr Þorpinu ásamt þvi að fá “gamla” Þórsara aftur heim. Að sjálfsögðu stendur uppúr að hafa fengið Odd aftur heim í félagið og alveg klárt að hann hefur gefið liðinu mikið. Einnig gleður það mig sem markmann að sjá að félagið fékk Hörð Flóka til starfa og er að búa til einn efnilegasta markmann landsins í honum Kristjáni Páli, ég reyni að sjá sem flesta leiki á passanum og er mjög skemmtilegt að sjá þetta lið fullt af Þórsurum spila í Höllinni okkar.“
Fáum við endurkomu frá Bubba í Þorpið?
„Það er auðvitað rómantík í því að klára ferilinn í félaginu sem gaf mann fyrst tækifæri og kynnti mann fyrir sínum bestu vinum sem maður á ennþá í dag. Það að hafa flutt til Akureyrar og lent réttu megin við ána hefur verið eitt mitt helsta gæfuspor í lífinu. Síðan að hafa lent á handboltaæfingu með Gunna Mall sem sinn fyrsta þjálfara, hann lagði okkur strákunumm lífsreglurnar og lét okkur heyra það þegar lætin voru orðin of mikil. Seinna meir tók Rúnar Sigtryggs við mér og gerði mig að þeim leikmanni sem ég er ennþá í dag, það væri gaman að geta borgað einn daginn tilbaka allt það sem þessir menn og fleiri hafa gert fyrir mann.“