„Allt sem ég geri í dag kemur frá þeim grunni sem ég lærði í Þór“

Tryggvi leikur stórt hlutverk í liði Bilbao í spænsku úrvalsdeildinni.
Mynd - FIBA
Tryggvi leikur stórt hlutverk í liði Bilbao í spænsku úrvalsdeildinni.
Mynd - FIBA

Þórsarinn Tryggvi Snær Hlinason er ánægður með lífið og tilveruna á Spáni en þar hefur hann leikið við góðan orðstír í meira en sjö ár. Heimasíðan heyrði í Tryggva sem undirbýr sig nú fyrir tvo leiki með íslenska landsliðinu gegn Ítalíu í undankeppni EM í körfubolta.

Tryggvi hefur verið á Spáni síðan hann gekk til liðs við Valencia 2017 en þaðan fór hann að láni til Obradoiro áður en hann skipti yfir í Zaragoza. Eftir flott tímabil síðasta vetur þar sem Tryggvi var til að mynda með bestu tveggja stiga skotnýtinguna í deildinni og með næst flesta varða bolta í leik eða að meðaltali 1,7 í hverjum leik skipti hann yfir til Surne Bilbao Basket. Þar hefur hann haldið áfram að gera það gott en hann er með sjö stig að meðaltali í leik og 5,3 fráköst.

Tryggva þarf svo sannarlega ekki að leiðast á Spáni því kærastan hans, Sunneva Dögg Robertson, hjúkrunarfræðingur og fyrrverandi landsliðskona í sundi, býr með okkar manni og virðast þau una sér vel í Bilbao sem liggur á norðurströnd Spánar. „Við Sunneva erum mjög ánægð í Bilbao og erum núna búin að vera meira en 7 ár á Spáni svo það má segja að við séum orðin nokkuð vön lífinu hérna úti. Bilbao er borg sem hefur mikla sögu og hefur allt til alls, en það sem við erum mest hrifin af er að skoða í kringum borgina og þá sérstaklega við ströndina,“ segir Tryggvi.

Tryggvi býr í Bilbao ásamt kærustu sinni

Gleymir ekki rótunum

Líf atvinnumanna í íþróttum getur verið fljótt að breytast og getur íþróttafólk þurft að skipta um borgir eða hreinlega lönd með skömmum fyrirvara. „Planið er að halda áfram að spila úti og eins og staðan er núna þá er Spánn mjög góður staður til að búa á og spila í frábærri deild.“

Eins og flestir vita er Tryggvi alinn upp í Svartárkoti í Bárðardal, fallegasta stað á landinu að hans sögn. En hann byrjaði að æfa körfubolta hjá Þór veturinn 2014. Ferilinn síðan þá hefur verið hálf ótrúlegur en auk þess að spila í einni sterkustu deild heims er Tryggvi algjör lykilmaður í íslenska landsliðinu. Hann segist þó aldrei gleyma því hvaða félag það var sem gerði hann að körfuboltamanni. „Það sem ég lærði fyrstu árin var náttúruleg ótrúlega mikið og allt sem ég geri í dag kemur frá þeim grunni sem ég lærði í Þór.“

Einhver skilaboð til Þórsara að lokum?

„Áfram Þór, alltaf allstaðar“

Mögnuð mynd af Tryggva í leik með Þór. Mynd - Palli Jóh.