Karfan er tóm.
- Deildir
- Fréttir & Greinar
- Fræðsla & Forvarnir
- Félagið
- Miðlar & Myndefni
- Ábending um heiðursmerki
- Þór TV
Þær eru mættar á stóra sviðið, ekki bara til að vera með heldur til að vera og láta til sín taka! Kvennalið Þórs í körfubolta mætir Keflvíkingum í úrslitaleik VÍS-bikarkeppninnar í Laugardalshöllinni í kvöld kl. 19.
Þórsliðið hefur vakið verðskuldaða athygli í vetur og eflaust komið einhverjum á óvart. Oft hafa þær stuðað bæði andstæðinga, áhugafólk og sérfræðinga með mikilli og kröftugri stemningu fyrir leiki og í leikjum, en einmitt þessi orka skilaði þeim aukaskrefinu sem þurfti til að vinna eitt af bestu liðum Subway-deildarinnar í undanúrslitum bikarkeppninnar á miðvikudagskvöldið. Ævintýrið heldur áfram í kvöld. Með sömu stemningu í stúkunni og inni á vellinum og okkar fólk bjó til í undanúrslitum er allt hægt. Segja má að upp sé runninn öskurdagur. Við öll og stelpurnar sjálfar ætlum að öskra okkur í átt að bikarnum!
Eins og margoft hefur komið fram eru tæp 49 ár frá því að kvennalið Þórs vann bikarkeppnina og er það jafnframt eina skiptið sem Þórsarar hafa átt lið í bikarúrslitaleiknum. Þór vann KR í úrslitaleiknum, 20-16. Það má því orða það þannig að Þórsarar hafi aldrei tapað bikarúrslitaleik og eru því með besta sigurhlutfallið í slíkum leikjum! Keflvíkingar hafa hins vegar unnið bikarinn 15 sinnum, fyrst 1988 og síðast 2018. Þær hafa farið 24 sinnum í úrslitaleikinn, oftast allra liða.
Þegar Þórsstelpurnar stíga á fjalirnar í Laugardalshöllinni verða liðnir 17.879 dagar frá því að okkar konur hömpuðu bikarnum í Íþróttaskemmunni á Akureyri síðdegis laugardaginn 12. apríl 1975, eða 48 ár, 11 mánuðir og 12 dagar. Það er því ekki nema von að litið sé á þennan leik í kvöld sem stórviðburð í sögu félagsins. Hvatning til stuðningsfólk að mæta á leikinn í kvöld gæti líka falist í eftirfarandi: Ef svo ólíklega myndi nú vilja til að eftir leikinn í kvöld líði aftur tæp 49 ár þar til við förum næst í bikarúrslit, sem yrði þá í mars 2073, væri þá ekki slæmt að missa af leiknum í kvöld?
Eitt er að minnsta kosti víst að það er von á góðri skemmtun í kvöld í baráttu tveggja góðra liða og klárlega mikil stemning í stúkunni. Þórsarar munu fjölmenna og verða örugglega fleiri og háværari en í undanúrslitaleiknum á miðvikudagskvöldið. Þetta er ekki viðburður til að missa af.
Miðasala fer öll fram í Stubbi og er fólk minnt á að kaupa Þórsmiða þegar kemur að valinu þar. Einnig er boðið upp á barnamiða. Þegar komið er inn í Stubb taka athugulir aðdáendur væntanlega eftir því að miðar Keflavíkur eru ódýrari, en það er vegna þess að Keflavík er með lið í báðum leikjunum. Mikilvægt að velja rétt, velja Þórsmiða.
Áfram verður haldið að rifja upp fortíðina hér á heimasíðunni gluggað í sögu bikarúrslitaleikja eins og hún birtist á vef KKÍ.