Karfan er tóm.
- Deildir
- Fréttir & Greinar
- Fræðsla & Forvarnir
- Félagið
- Miðlar & Myndefni
- Ábending um heiðursmerki
- Þór TV
Aðalstjórn Þórs boðaði til almenns félagsfundar í Hamri síðastliðinn miðvikudag þar sem Nói Björnsson formaður, Ragnar Níels Steinsson varaformaður og Reimar Helgason framkvæmdastjóri fóru yfir og kynntu þá vinnu og þær viðræður sem farið hafa fram um framtíðaruppbyggingu á Þórssvæðinu.
Fundurinn var fjölmennur og mættu þar meðal annarra fulltrúar meirihlutaflokkanna í bæjarstjórn. Fundargestir tóku virkan þátt í umræðum og var spurningum beint bæði til forráðamanna félagsins og bæjarfulltrúanna sem sóttu fundinn.
Nói Björnsson, formaður Þórs, setti á blað nokkur orð um fundinn og efni hans sem hér með er komið á framfæri við félagsfólk.
- - -
Ágætu Þórsarar.
Takk fyrir góðan félagsfund síðastliðinn miðvikudag. Frábær mæting, skoðanaskipti skýr og ánægjuleg. Skilaboð fundarins voru mjög skýr til okkar sem erum í vinnuhópnum og til aðalstjórnar.
Það var einnig ánægjulegt að sjá bæjarfulltrúa meirihlutans á fundinum og þátttöku þeirra í umræðunni. Það er félaginu til happs að að meirihlutinn horfir jákvæðum augum á uppbyggingu íþróttamannvirkja og mun félagið njóta góðs af því. Hins vegar verðum við að vanda okkur í uppbyggingunni og horfa til næstu 50 ára að minnsta kosti.
Vinnuhópurinn mun á næstu dögum setjast yfir fyrstu drög frá bænum að skipulagi svæðisins og taka með í reikninginn þau skilaboð sem komu fram. Ástæðan fyrir því að drögin voru ekki sýnd á fundinum var einfaldlega sú að vinnuhópurinn náði lítillega að kynna sér drögin fyrir fundinn. Skoðanir hópsins voru síðan mjög skiptar um ágæti tillögunnar og töldum við einnig að myndasýning myndi taka alla athygli frá aðalatriði fundarins. Sem var að sjálfsögðu framsetning Ragnars af þeirri vinnu sem vinnuhópurinn okkar hefur lagt í varðandi verkefnið.
Það er alveg ljóst að ef við sem félag ætlum að taka næstu skref fram á við þá er engin þolinmæði fyrir margra ára bið eftir íþróttahúsi á svæðið okkar. Biðin er klárlega nú þegar orðin alltof löng. Það er mikil og ánægjuleg fjölgun iðkenda í körfunni og einnig í handboltanum og aðstaðan sem okkur stendur til boða út um allan bæ er þegar sprungin.
Framtíðaruppbygging bæjarins verður í Móahverfinu og þurfum við að mæta þeirri áskorun og aðstaða dagsins í dag dugar félaginu engan vegin.
Með bættri aðstöðu og fjölgun íbúa í Þorpinu verður gaman að sjá félagið okkar stækka og dafna enn frekar.
Takk fyrir,
Nói Björnsson
Mjög góð mæting var á fundinn.