Karfan er tóm.
- Deildir
- Fréttir & Greinar
- Fræðsla & Forvarnir
- Félagið
- Miðlar & Myndefni
- Ábending um heiðursmerki
- Þór TV
KA/Þór valtaði yfir Stjörnuna í öðrum leik liðanna í úrslitakeppni Olísdeildarinnar í handbolta í dag. Sextán marka sigur og liðin mætast í oddaleik í Garðabænum á sunnudag.
KA/Þór hreinlega valtaði yfir Stjörnuna frá byrjun og kláraði leikinn á fyrsta stundarfjórðungnum. Staðan var orðin 9-1 eftir tæplega 15 mínútna leik og greinilegt á leik KA/Þórs að stelpurnar eru meira en til í oddaleik í þessu einvígi og helst fleiri leiki í framhaldinu. Sætin í deildinni skipta ekki öllu máli þegar komið er í svona einvígi, eins og sást á hinu einvíginu sem var í gangi þar sem Haukar hentu Fram út úr mótinu. Matea Lonac var frábær í markinu hjá KA/Þór í dag, varði til dæmis tíu skot í fyrri hálfleiknum, sem er um 58,8%. Vörslurnar voru aðeins færri í þeim seinni, en í heild frábær leikur hjá Mateu.
Forystan var orðin tíu mörk eftir fyrri hálfleikinn, 17-7 og hefði þurft ævintýralegt kraftaverk fyrir gestina til að ná að vinna upp þennan mun í seinni hálfleiknum. Þeim stóð það heldur ekkert til boða því KA/Þór hélt bara áfram af krafti og jók muninn í seinni hálfleiknum.
Þegar upp var staðið var munurinn orðin 16 mörk! KA/Þór sigraði Stjörnuna, 34-18. Þó frábær byrjun hafi lagt grunninn að sigrinum var það hreinlega allur leikurinn sem var frábær hjá KA/Þór. Stelpurnar gáfu gestunum aldrei færi á að rétta úr kútnum eftir fyrsta korteri og keyrðu áfram af krafti með Mateu Lonac frábæra fyrir aftan sig í markinu.
Það virtist ekki hafa nein áhrif á leikmenn KA/Þórs þó Rut Jónsdóttir gæti ekki spilað, en hún meiddist í fyrsta leik liðanna og spilaði raunar ekki síðustu 20 mínúturnar í þeim leik. Andri Snær Stefánsson, þjálfari KA/Þórs, fullyrti í viðtali á Stöð 2 sport fyrir leik að Rut yrði með á sunnudaginn – og sagði það eins og þá þegar væri klárt að KA/Þór myndi vinna í dag og knýja fram oddaleikinn sem þær þurfa til að komast áfram í undanúrslit.
KA/Þór
Mörk: Ida Hoberg 7, Nathalia Soares 7, Lydía Gunnþórsdóttir 6, Hildur Lilja Jónsdóttir 4, Anna Þyrí Halldórsdóttir 3, Aþena Einvarðsdóttir 3, Kristín A. Jóhannsdóttir 2, Júlía Björnsdóttir 1, Anna Mary Jónsdóttir 1.
Varin skot: Matea Lonac 17 (53,1%).
Refsingar: 4 mínútur.
Stjarnan
Mörk: Lena Margrét Valdimarsdóttir 6, Helena Rut Örvarsdóttir 3, Stefanía Theodórsdóttir 3, Eva Björk Davíðsdóttir 2, Hanna guðrún Stefánsdóttir 1, Britney Cots 1, Vigdís Anna Hjartardóttir 1, Anna Karen Hansdóttir 1.
Varin skot: Darija Zecevic 7 (23,3%), Elísabet Millý Elíasardóttir 1.
Refsingar: 8 mínútur.
Tölfræði leiksins á hbstatz.is.
Leikskýrslan á vef HSÍ.
Oddaleikur liðanna verður í Garðabænum sunnudaginn 23. apríl kl. 16.
Lydía Gunnþórsdóttir var með 100% skotnýtingu í dag, eins og reyndar þrjár aðrar í liðinu. Lydía skoraði sex mörk í dag, þar af fimm úr vítum. Myndir: Skapti Hallgrímsson - Akureyri.net.