Handbolti: Gríðarlega mikilvægur heimaleikur hjá KA/Þór

KA/Þór tekur á móti liði ÍBV í dag kl. 17 í Olísdeild kvenna í handbolta. Enn einn úrslitaleikurinn fram undan hjá stelpunum í baráttunni um að halda sæti sínu Olísdeildinni og stuðningur af pöllunum mikilvægur eins og alltaf.

Hér er um frestaðan leik að ræða sem átti upphaflega að vera 27. janúar, en óveður hamlaði samgöngum frá Eyjum. En nú er komið að þessum mikilvæga leik, sem er sá þriðji síðasti hjá liðinu í deildinni í vetur. ÍBV er í 4. sæti deildarinnar og þarf á stigunum að halda, rétt eins og KA/Þór. Eyjakonur vilja eflaust halda 4. sætinu og fá heimaleiksréttinn gegn ÍR þegar úrslitakeppnin hefst. Þar bíða liðin í tveimur efstu sætunum, en liðin í 3.-6. sæti mætast í fyrstu umferðinni. KA/Þór er í botnsætinu með fimm stig, þremur stigum á eftir Aftureldingu og fjórum á eftir Stjörnunni. Stigin tvö í kvöld eru því mögulega mikilvæg fyrir ÍBV, en algjörlega lífsnauðsynleg fyrir okkar lið.

Mótherjarnir í lokaumferðunum tveimur verða svo Afturelding hér fyrir norðan laugardaginn 16. mars og Fram á útivelli viku síðar.

Næst

  • Leikur: KA/Þór - ÍBV
  • Staður: KA heimili
  • Dagur: Föstudagur 8. mars
  • Tími: 17:00