Karfan er tóm.
- Deildir
- Fréttir & Greinar
- Fræðsla & Forvarnir
- Félagið
- Miðlar & Myndefni
- Ábending um heiðursmerki
- Þór TV
Á Íþróttahátíð Akureyrar sem haldin var í Hofi í dag var ekki aðeins tilkynnt um kjör á íþróttafólki Akureyrar heldur voru einnig afhentir styrkir og veittar heiðursviðurkenningar fræðslu- og lýðheilsuráðs. Þar áttum við nokkra fulltrúa.
Eins og kom fram í annarri frétt var Sandra María Jessen kjörin íþróttakona Akureyrar 2023. Maddie Sutton deilir titlinum íþróttakona Þórs 2023 með Söndru Maríu og var ekki langt undan í kjörinu, hún varð í 4. sæti. Elmar Freyr Aðalheiðarson, íþróttakarl Þórs, var á meðal tíu hæstu karla í kjörinu. Við athöfnina í dag voru lesnar upp umsagnir um það íþróttafólk sem var verðlaunað, það er texti sem íþróttafélögin og/eða deildir þess senda inn með tilnefningunum. Þessar umsagnir um okkar fólk hafa áður verið birtar hér á heimasíðunni þegar valið var tilkynnt þann 6. janúar - sjá hér.
Sandra María Jessen, íþróttakona Akureyrar 2023, ásamt afa og ömmu Baldvins Þórs Magnússonar, íþróttakarls Akureyrar 2023. Ljósmynd: Þórir Ó. Tryggvason/ÍBA.
Fimm efstu karlar og fimm efstu konur í kjörinu eða fulltrúar þeirra. Maddie Sutton er önnur frá hægri. Sandra María Jessen er í miðjunni (sjötta frá hægri. Ljósmynd: Þórir Ó. Tryggvason/ÍBA.
Sagt er frá hátíðinni, verðlaunum, viðurkenningum og styrkjum í frétt á vef ÍBA - sjá hér. Þar eru einnig fleiri myndir frá verðlaunaveitingum.
Myndirnar hér að neðan eru skjáskot úr streymi frá hátíðinni í dag.
Tvö ungmenni úr Þór hlutu styrk úr Afrekssjóði Akureyrar, þó annað þeirra hafi reyndar söðlað um og gengið til liðs við annað félag eftir lok keppnistímabilsins í fyrra. Þetta eru þau Eva Wium Elíasdóttir og Bjarni Guðjón Brynjólfsson. Eftirfarandi umsagnir um þau voru lesnar upp við athöfnina í dag.
Eva Wium Elíasdóttir, leikmaður körfunknattleiksliðs Þórs og landsliðskona.
Eva er 19 ára gömul körfuknattleikskona sem spilar með Þór í efstu deild, í fyrsta sinn sem félagið á lið í efstu deild síðan 1978. Í sumar var Eva í U20 landsliði kvenna sem fór á tvö mót. Þar stóð Eva sig það vel að hún var kölluð inn í æfingahóp íslenska landsliðsins sem fór til Svíþjóðar og lék tvo æfingaleiki við heimakonur. Hún er fyrst A-landsliðskona Þórsara í körfuknattleik í 50 ár. Eva er virkur þátttakandi í uppbyggingu körfuknattleiks kvenna á Akureyri þar sem hún bæði þjálfar yngri flokka og kennir einnig byrjendum í íþróttinni í grunnskóla.
Bjarni Guðjón Brynjólfsson, knattspyrnumaður og U19 landsliðsmaður
Bjarni Guðjón Brynjólfsson, einn af efnilegustu knattspyrnumönnum Þórs. Á liðnu ári var Bjarni í stóru hlutverki í meistaraflokki Þórs þrátt fyrir að vera aðeins 19 ára gamall. Auk þess að leika fyrir Þór í Lengjudeildinni hefur hann verið í stóru hlutverki í U19 landsliði Íslands sem komst á lokamót EM í sumar, en það var í fyrsta sinn í sögunni U19 landslið karla vann sér rétt til að leika á lokamóti EM. Bjarni sinnir æfingum af krafti og leggur mikið á sig sem íþróttamaður. Hann er góð fyrirmynd fyrir yngri iðkendur félagsins og hefur einnig sinnt þjálfun yngri flokka.
Þórunn Sigurðardóttir - Tóta - hlaut heiðursviðurkenningu fræðslu- og lýðheilsuráðs Akureyrarbæjar.
Eftirfarandi umsögn var lesin upp við afhendinguna:
Þórunn Sigurðardóttir er fædd þann 26. júní 1963. Tóta lék handbolta og fótbolta með Þór frá unga aldri, auk þess að stunda frjálsar íþróttir á yngri árum. Afrekin innan vallar voru mörg og til dæmis fótbolta með Örebro í Svíþjóð og á handboltavellinum urðu Tóta og dóttir hennar, Inga Dís, fyrstu mæðgurnar á Íslandi til að spila saman í efstu deild. Tóta þjálfaði yngri flokka í handbolta og fótbolta, ásamt því að þjálfa meistaraflokk kvenna í fótbolta um tíma. Eftir að keppnis- og þjálfaraferlinum lauk hefur Tóta verið eins og grár köttur í kringum Íþróttafélagið Þór og ekkert verkefni fyrir félagið er of stórt fyrir hana. Tóta tilheyrir þeim hópi Þórsara sem vinna sín verkefni í hljóði og gerir það með stæl. Tóta er hjálpsöm í víðustu merkingu þess orðs, með hjarta úr gulli og í raun er hún mesti Þórsari sem til er og stuðningsmaður númer eitt og er hún handhafi gullmerkis Þórs fyrir störf hennar. Þórunn Sigurðardóttir er þannig manneskja að óhætt er að fullyrða að öll íþróttafélög þyrftu að eiga sína Tótu."
Auk Tótu er vert að nefna að Þórir Ó. Tryggvason, íþróttaljósmyndarinn (með greini) hlaut heiðursviðurkenningu fræðslu- og lýðheilsuráðs Akureyrarbæjar fyrir ómetanleg störf í þágu íþróttahreyfingarinnar, en eins og flest vita mætir Þórir á næstum alla íþróttaviðburði á Akureyri og myndar. Fram kom við afhendingu viðurkenningarinnar að Þórir hefur tekið myndir á íþróttaviðburðum í 26 ár og hefur tekið 1,5 milljónir mynda.