Einstök Sandra náði merkilegum áfanga - þriðja sætið náðist hjá Þór/KA

Sandra María Jessen er frábær leikmaður og fyrirliði Þór/KA. Mynd: Þórir Tryggva
Sandra María Jessen er frábær leikmaður og fyrirliði Þór/KA. Mynd: Þórir Tryggva

Þór/KA gerði um helgina jafntefli við Fylki 2-2 í Árbænum í Bestu deild kvenna í fótbolta. Það var okkar allra besta Sandra María Jessen sem skoraði bæði mörk liðsins og náði þar með þeim einstaka áfanga að hafa skorað á móti öllum liðum deildarinnar. Algjörlega magnað hjá Söndru sem jafnframt er langsamlega markahæst í deildinni með 20 mörk í 18 leikjum. Við bendum á skemmtilegt viðtal við Söndru sem Akureyri.net tók í gær. Lesið það með því að smella HÉR

Leikurinn gegn Fylki var síðasti leikurinn í ,,venjulegri" deildarkeppni og nú hefur deildinni verið skipt upp í efri og neðri hluta þar sem sex efstu liðin spila einu sinni gegn hvoru öðru og svo neðstu fjögur. Þór/KA endaði í þriðja sæti deildarinnar en tekið skal fram að liðin hafa stigin með sér í þennan síðasta hluta mótsins svo að ekki er mikill möguleiki á Íslandsmeistaratitli, slíkt er bilið í toppliðin tvö, Val og Breiðablik. Hins vegar skipti það miklu máli að ná þriðja sæti því þar með fær Þór/KA þrjá heimaleiki og tvo útileiki. Það sparaði því liðnu eitt ferðalag að enda svona ofarlega í deildinni.

Fyrsti leikurinn í úrslitakeppninni er strax á laugardaginn þegar FH kemur í heimsókn til Akureyrar.