Fjögurra marka tap á Selfossi

Skjáskot af útsendingu á Selfoss TV á YouTube.
Skjáskot af útsendingu á Selfoss TV á YouTube.

Þórsarar náðu ekki að taka með sér stigin tvö frá Selfossi þegar þeir mættu ungmennaliði heimamanna í Grill 66 deildinni í kvöld. Selfyssingar sigruðu, 34-30.

Heimamenn tóku frumkvæðið í byrjun og staðan 6-2 eftir um tíu mínútna leik, Þórsarar minnkuðu muninn í tvö mörk, 7-5, en rúmum tíu mínútum síðar var munurinn orðinn átta mörk, 15-7. Þórsarar náðu að klóra í bakkann fyrir hlé og minnka muninn í sex mörk, staðan 17-11 í leikhléi.

Selfyssingar náðu átta marka forystu í upphafi seinni hálfleiksins, 20-12, en Þórsarar náðu muninum niður í þrjú mörk, 23-20 þegar rúmur stundarfjórðungur var eftir af leiknum. Selfyssingar hleyptu þeim ekki nær og munurinn var 3-5 mörk það sem eftir var leiksins og lokatölur 34-31.

Arnór Þorri Þorsteinsson og Jonn Rói Tórfinnsson voru eins og oft áður mest áberandi í markaskorun Þórsliðsins, Arnór með 10 mörk og Rói sjö.

Tölfræðin

Selfoss
Mörk: Sæþór Atlason 10, Hans Jörgen Ólafsson 8, Vilhelm Freyr Steindórsson 7, Haukur Páll Hallgrímsson 4, Gunnar Kári Bragason 3, Árni Ísleifsson 2.
Varin skot: Alexander Hrafnkelsson 14.
Brottvísanir: 4 mínútur

Þór
Mörk: Arnór Þorri Þorsteinsson 10, Jonn Rói Tórfinnsson 7, Aron Hólm Kristjánsson 5, Halldór Kristinn Harðarson 3, Andri Snær Jóhannsson 2, Halldór Kristinn Harðarson 1, Jóhann Geir Sævarsson1, Sigurður Ringsted Sigurðsson 1.
Varin skot: Kristján Páll Steinsson 6 (20,9%).
Brottvísanir: 4 mínútur

Tölfræði leiksins á Hbstatz.is.

Fyrir leikinn voru Þórsarar með 12 stig, einu stigi minna en Selfyssingar. Þetta var næstsíðasti leikur liðsins í deildarkeppninni, en Þórsarar fá ungmennalið Vals í heimsókn í Höllina föstudaginn 31. mars og hefst sá leikur kl. 20:15. Athygli er vakin á breyttri tímasetningu, sem stafar af því að sama dag verður þriðji leikur Þórsliðsins í úrslitakeppni 1. deildar kvenna í körfubolta. Eins og áður hefur komið fram hér hefst úrslitakeppni Grill 66 deildarinnar eftir páska.