Karfan er tóm.
- Deildir
- Fréttir & Greinar
- Fræðsla & Forvarnir
- Félagið
- Miðlar & Myndefni
- Ábending um heiðursmerki
- Þór TV
Líkt og venja er fara yngri flokkar Þórs í stutt frí í kringum Verslunarmannahelgi þar sem iðkendum og þjálfurum gefst tækifæri til að hlaða batterýin fyrir lokaátökin á fótboltasumrinu.
Það hefur verið gríðarlega mikið um að vera hjá okkar fólki í allt sumar og ekki úr vegi að fara aðeins yfir sviðið.
8.flokkur
Í 8.flokki æfa krakkar á leikskólaaldri og eru æfingar þrisvar í viku undir styrkri stjórn Magnúsar Eggertssonar sem hefur séð um þjálfun yngstu iðkenda Þórs undanfarinn áratug. Annað sumarið í röð hefur skráður iðkendafjöldi í 8.flokki farið yfir 100 sem er magnað.
Við sendum 10 lið til leiks á hinu stórskemmtilega Strandarmóti sem fram fór á Dalvíkurvelli í júlímánuði og í lok ágúst tekur 8.flokkur þátt á Völsungsmóti á Húsavík.
7.flokkur kvenna
Mikil gleði hefur einkennt 7.flokk kvenna í sumar og fjölmenntu stelpurnar í Kópavog á stærsta yngri flokka mót landsins þegar Símamótið fór fram í júlí. Þár var Þór með fjögur lið sem stóðu sig vel og komu tvö þeirra með verðlaun heim í Hamar.
Margrét Árnadóttir og Hulda Björg Hannesdóttir eru þjálfarar 7.flokks kvenna.
7.flokkur karla
Norðurálsmótið á Akranesi er stóra mótið hjá 7.flokki á hverju ári og það stóðst allar væntingar í ár þar sem Þórsarar fjölmenntu með sjö lið sem öll stóðu sig með prýði en úrslit eru ekki skráð á Norðurálsmótinu.
Arnar Geir Halldórsson, Aron Birkir Stefánsson og Tómas Örn Arnarson eru þjálfarar 7.flokks karla.
6.flokkur kvenna
6.flokkur er fjölmennasti kvennaflokkur félagsins annað árið í röð og hafa æft af miklum krafti í sumar. Flokkurinn tók þátt í Símamótinu þar sem Þór sendi sex lið til leiks og unnu tvö þeirra til verðlauna.
Stelpurnar tóku einnig þátt í vel heppnuðu ÓB-móti á Sauðárkróki í júní þar sem sex Þórslið tóku þátt.
Garðar Marvin Hafsteinsson og Gabríel Gyðuson eru þjálfarar 6.flokks kvenna.
6.flokkur karla
Suðurlandið er helsti áfangastaður 6.flokks karla þar sem yngra árið hélt til Selfoss í byrjun sumar og tók þátt í Setmóti en þar tefldi Þór fram þremur liðum. Síðar í júní var svo komið að sjálfu Orkumótinu í Vestmannaeyjum þar sem Þór tefldi einnig fram þremur liðum.
Árangur Þórsliðanna var góður, Þór 1 gerði sér lítið fyrir og vann Álseyjarbikarinn örugglega með stórsigri í úrslitaleik. Björn Brimir Jóhannsson var valinn í úrvalslið mótsins og var einnig fulltrúi Þórs í landsleiknum þar sem hann skoraði glæsilegt mark.
Þjálfarar 6.flokks karla eru Garðar Marvin Hafsteinsson og Pétur Heiðar Kristjánsson
5.flokkur karla
Í 5.flokki karla teflum við fram fimm liðum í Íslandsmóti og einnig tóku fimm Þórslið þátt í N1-mótinu í byrjun júlí þar sem gengi var almennt gott. Þór 4 gerði sér lítið fyrir og sigraði Íslensku deildina á mótinu með glæsibrag.
5.flokkur hefur leikið 38 leiki í Íslandsmóti í sumar; unnið 8, gert 4 jafntefli og tapað 26 leikjum.
Þjálfarar 5.flokks karla eru Steinar Logi Rúnarsson, Brynjólfur Sveinsson og Tómas Örn Arnarson.
-Sigurvegarar í Íslensku deildinni á N1 mótinu 2023.
5.flokkur kvenna
Í 5.flokki kvenna teflum við fram fjórum liðum og á TM-mótinu í Vestmannaeyjum áttu Þórsarar fjögur lið sem áttu frábæra daga í Vestmannaeyjum. Þrjú Þórslið léku til úrslita um bikar en töpuðu öll úrslitaleiknum með eins marks mun. Má því segja að um Silfurmót hafi verið að ræða hjá okkar stelpum.
Emma Júlía Cariglia var valin í úrvalslið mótsins en hún var einnig fulltrúi Þórs í landsleiknum þar sem hún var á skotskónum.
5.flokkur hefur leikið 23 leiki á Íslandsmóti; unnið 11, gert 2 jafntefli og tapað 10 leikjum.
Þjálfarar 5.flokks kvenna eru Margrét Árnadóttir, Alma Sól Valdimarsdóttir og Arna Kristinsdóttir.
-Frábærir fulltrúar okkar á TM mótinu í Vestmannaeyjum 2023.
4.flokkur kvenna
Stelpurnar í 4.flokki eru nýkomnar heim af Rey Cup þar sem frábær árangur náðist en Þór tefldi fram tveimur liðum sem fóru bæði alla leið í úrslitaleik með því að vinna fyrstu fimm leiki sína á mótinu.
Í úrslitaleikjunum biðu Þórsliðin bæði lægri hlut fyrir Stjörnunni í vítaspyrnukeppni. Svekkjandi endir á vægast sagt frábæru móti hjá Þórsliðunum.
4.flokkur hefur leikið 20 leiki á Íslandsmóti; unnið 5, gert 1 jafntefli og tapað 14 leikjum.
Þjálfarar 4.flokks kvenna eru Pétur Heiðar Kristjánsson og Birkir Hermann Björgvinsson.
- 4.flokkur kvenna átti frábæru gengi að fagna á Rey Cup 2023
4.flokkur karla
4.flokkur er fjölmennasti karlaflokkurinn félagsins og eru einnig nýkomnir heim af Rey Cup þar sem fjögur Þórslið tóku þátt í karlaflokki og stóðu sig með prýði.
4.flokkur hefur leikið 42 leiki á Íslandsmóti, unnið 22, gert 2 jafntefli og tapað 18 leikjum.
Þjálfarar 4.flokks karla eru Garðar Marvin Hafsteinsson, Ármann Pétur Ævarsson og Aðalgeir Axelsson.
3.flokkur kvenna
Í 3.flokki kvenna er teflt fram sameinuðu liði undir merkjum Þórs/KA og er um að ræða fjölmennasta 3.flokk landsins en Þór/KA teflir fram þremur liðum í Íslandsmóti.
3.flokkur hefur leikið 28 leiki á Íslandsmóti; unnið 22, gert 1 jafntefli og tapað 5 leikjum.
Þjálfarar 3.flokks kvenna eru Ágústa Kristinsdóttir og Hulda Björg Hannesdóttir.
3.flokkur karla
Í 3.flokki karla teflir Þór fram þremur 11 manna liðum og er það í fyrsta skipti í sögu félagsins sem svo mörg lið eru í 3.flokki.
3.flokkur hefur leikið 34 leiki á Íslandsmóti; unnið 19, gert 9 jafntefli og tapað 6 leikjum.
Þjálfarar 3.flokks karla eru Aðalgeir Axelsson, Kristján Sigurólason og Arnar Geir Halldórsson.
2.flokkur kvenna
Í 2.flokki kvenna er teflt fram sameiginlegu liði undir merkjum Þórs/KA/Völsungs og er gengið til þessa einkar glæsilegt þar sem lið 1 er með fullt hús stiga á toppi A-deildar eftir sjö leiki.
2.flokkur hefur leikið 16 leiki á Íslandsmóti; unnið 12, gert 1 jafntefli og tapað 3 leikjum.
Þjálfarar 2.flokks kvenna eru Pétur Heiðar Kristjánsson og Birkir Hermann Björgvinsson.
2.flokkur karla
Í 2.flokki karla er teflt fram sameiginlegu liði undir merkjum Þór/THK (Tindastöll, Hvöt og Kormákur). Tvö lið taka þátt í Íslandsmóti sem mun ljúka í byrjun október.
2.flokkur hefur leikið 26 leiki á Íslandsmóti; unnið 13, gert 3 jafntefli og tapað 10 leikjum.
Þjálfarar 2.flokks karla eru Páll Viðar Gíslason og Arnar Geir Halldórsson.