Geggjaðar og stefna á toppinn

Geggjaðar og stefna á toppinn

Heiða Hlín Björnsdóttir fyrirliði Þórs var kát í leikslok eftir góðan sigur gegn Ármanni 77:66 og lagði til að fyrirsögnin að umfjöllun yrði “Stelpurnar eru geggjaðar og stefna á toppinn.”

Fyrirfram mátti búast við að leikur Þórs og Ármanns í 1. deild kvenna í körfubolta yrði jafn og skemmtilegur sem og raunin varð á. Þór skoraði fyrstu stig leiksins 2:0 en gestirnir komust fljótt yfir og héldu forystunni fram í síðari hluta fyrri hálfleiks. Forskot gestanna var mest 10 stig en þegar leið á annan leikhlutann tóku Þórsstúlkur við sér og skiptu um gír. Þegar um mínúta lifði fyrri hálfleik jafnaði Þór 38:38 og náðu svo forskoti 40:38 en síðustu stig fyrri hálfleiks gerðu gestirnir af vítalínunni og staðan í hálfleik 40:39 Þór í vil.

Þórsarar voru lengi í gang og það nýttu gestirnir sér en með baráttu snéri Þór leiknum sér í vil. Í fyrri hálfleiknum fór Heiða Hlín fyrir sínu liði eins og sönnum fyrirliða ber og hún var komin með 19 stig þegar fyrri hálfleik lauk. Þá var Eva Wium með 9 stig og Tuba 7.

Hjá gestunum var Jónína atkvæðamest með 11 stig, Schekinah 7 og Elfa 5.

Þórsarar byrjuðu síðari hálfleikinn mjög vel og leiddu það sem eftir lifði leiks með allt að 15 stigum 68:53 um miðjan fjórða leikhluta. Á lokakaflanum missti Þór þær Emmu Karólínu og Tuba af velli með fimm villur og sama var uppi á tengingunum hjá gestunum þegar Schekinah fékk sína fimmtu villu.

Þórsarar sigldu svo ellefu stiga þægilegum sigri í höfn 77:66. Sigur Þórs var afar sanngjarn og virtist það ekki há leik liðsins að Maddie átti ekki sinn besta dag með aðeins 7 stig en tók 11 fráköst. Sigur Þórs eins og svo oft áður var sigur liðsheildarinnar.

En bestar í liði Þórs voru þær Heiða Hlín með 25 stig og 9 fráköst, Eva Wium var með 19 og Tuba 16.

Hjá gestunum var Jónína Þórdís með 19 stig, Hildur Ýr 16 og Shekinah Bimpa með 13 stig og 21 fráköst.

Gangur leiks eftir leikhlutum: 16:18 / 24:21 (40:39) 14:9 / 23:18 = 77:66

Nánari tölfræði:

Með sigrinum skaust Þór upp í annað sæti deildarinnar með 24 stig líkt og Snæfell eftir sextán leiki en Stjarnan trónir á toppnum með 30 stig eftir sautján leiki.

Staðan  

Í næstu umferð tekur Þór á móti Tindastóli í leik sem fram fer í íþróttahöllinni miðvikudaginn 8. febrúar klukkan 19:15.

Myndir úr leiknum Palli Jóh

Viðtal við Daníel Andra

Viðtal við Heiðu Hlín

Áfram Þór alltaf, alls staðar