Handbolti: Sannfærandi sigur í öðrum leik einvígisins

Aron Hólm Kristjánsson skoraði tíu mörk í gærkvöld. Mynd: Skapti Hallgrímsson - Akureyri.net.
Aron Hólm Kristjánsson skoraði tíu mörk í gærkvöld. Mynd: Skapti Hallgrímsson - Akureyri.net.

Þórsarar unnu fimm marka sigur á Fjölni í öðrum leik liðanna í einvíginu um sæti í Olísdeildinni. Næsti leikur á föstudagskvöld syðra og rútuferð frá Hamri.

Vel var mætt á leikinn og frábær stemning, sem eflaust skilaði sér í því hvernig leikurinn þróaðist. Þórsarar gáfu tónin strax í upphafi og náðu fjögurra marka forystu, 5-1. Fjölnismenn minnkuðu þá muninn í þrjú mörk, en komust aldrei nær það sem eftir lifði leiks. Þórsarar héldu góðum tökum á leiknum, náðu nokkrum sinnum átta marka forystu og unnu að lokum með fimm mörkum. Munurinn var sex mörk í leikhléinu og Fjölnismenn þá aðeins fengið að skora sex mörk!

Í undanförnum leikjum hefur Brynjar Hólm Grétarsson verið áberandi í markaskorun, en nú tók Aron Hólm Kristjánsson að sér það hlutverk og skoraði tíu mörk. 

Þór - Fjölnir 25-20 (12-6)

Þór
Mörk: Aron Hólm Kristjánsson 10, Arnór Þorri Þorsteinsson 4, Brynjar Hólm Grétarsson 3, Friðrik Svavarsson 3, Jón Ólafur Þorsteinsson 2, Garðar Már Jónsson 1, Halldór Kristinn Harðarson 1, Þormar Sigurðsson 1.
Varin skot: 13 (39,4%)
Refsimínútur: 8.

Fjölnir
Mörk: Björgvin Páll Rúnarsson 5, Elvar Þór Ólafsson 5, Alex Máni Oddnýjarson 2, Dagur Logi Sigurðsson 2, Haraldur Björn Hjörleifsson 2, Viktor Berg Grétarsson 2, Aron Breki Oddnýjarson 1, Tómas Bragi Starrason 1
Varin skot: 9 (26,5%).
Refsimínútur: 6.

Með sigrinum jöfnuðu Þórsarar einvígið, en fyrsta leiknum lauk með sigri Fjölnis eftir framlengdan leik. Þriðji leikurinn verður í Grafarvoginum á föstudagskvöld og hefst leikurinn kl. 19:30. 

Handknattleiksdeildin stendur fyrir rútuferð fyrir stuðningsfólk á þriðja leik liðanna. Sætið kostar 3.000 krónur.