Karfan er tóm.
- Deildir
- Fréttir & Greinar
- Fræðsla & Forvarnir
- Félagið
- Miðlar & Myndefni
- Ábending um heiðursmerki
- Þór TV
Helgi Rúnar Bragason – Minning
Helgi Rúnar Bragason F: 5. júní 1976 – D: 27. ágúst 2023
Í dag, mánudaginn 11. september verður Helgi Rúnar Bragason lagður til sinnar hinstu hvílu og verður útförin gerð frá Akureyrarkirkju og hefst athöfnin klukkan 13.
Helgi Rúnar Bragason fæddist 5. júní 1976, hann lést sunnudaginn 27. ágúst einungis 47 ára að aldri. Helgi Rúnar greindist með krabbamein sumarið 2021 og barðist hetjulega við þann illvíga sjúkdóm sem hafði að lokum betur.
Helgi Rúnar var starfandi framkvæmdastjóri ÍBA frá árinu 2018 en var í veikindaleyfi síðustu misserin eftir að hann greindist með krabbamein.
Helgi, sem er fæddur og uppalinn í körfuboltabænum Grindavík fór þar upp í gegnum yngri flokka félagsins og lék svo með meistaraflokki þar til hann var 26 ára en þá lagði hann skóna á hilluna vegna meiðsla. Helgi var m.a. bikarmeistari með Grindavík og þjálfaði yngri flokka félagsins um árabil.
Við Þórsarar vorum svo lánsamir að njóta krafta Helga Rúnars um árabil en hann var afburðagóður þjálfari og almennur leiðbeinandi eins og þeir gerast bestir. Eftir að Helgi flutti til Akureyrar tók hann að sér þjálfun yngri flokka Þórs í körfubolta og sinnti því starfi að alúð og af mikilli natni. Helgi þjálfaði yngri flokka félagsins allt til ársins 2017 er hann tók þjálfun meistaraflokks kvenna og stýrði hann liðinu í tvö tímabil með frábærum árangri.
Helgi hafði afar gott auga og næmni fyrir ungum og efnilegum leikmönnum og var hann óhræddur við að gefa þeim tækifæri á að sanna sig innan vallar sem utan. Því má með sanni segja að Helgi Rúnar eigi stórann þátt í velgengni kvennaliðs Þórs sem vann sér inn þátttökurétt í deild þeirra bestu í vor. Því skyldi engan undra að það yljaði Helga um hjartaræturnar að sjá liðið tryggja sér sæti í efstu deild, lið sem hann átti svo stórann hlut í.
Fyrir störf sín hjá Þór var Helga veitt silfurmerki Þórs í afmælishófi félagsins þann 6. júní síðastliðin. Við sama tækifæri var eftirlifandi eiginkonu Helga, Hildi Ýr Kristinsdóttur veitt bronsmerki félagsins en þau hjónin voru afar dugleg í sjálfboðastarfi hjá félaginu. Dóttir Helga og Hildar er Karen Lind.
Um leið og Íþróttafélagið Þór þakkar Helga Rúnari fyrir samfylgdina og hans ómetanlega framlag til körfuboltans sem hann brann svo mikið fyrir sendir félagið fjölskyldu og ástvinum Helga Rúnars innilegar samúðarkveðjur.
Blessuð sé minning Helga Rúnars Bragasonar.
Hvíli hann í friði Guðs.
Íþróttafélagið Þór.